Jón Baldvin Hannibalsson nýtti bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann óskaði eftir því að dóttir sín yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Þetta fullyrðir Aldís Schram, umrædd dóttir Jóns Baldvins. Aldís segir jafnframt að Jón Baldvin hafi misnotað stöðu sína í sem sendiherra í persónulegum tilgangi, þannig hafi hann nýtt sér stöðu sína til að fá lögreglu til að brjóta sér leið inn á heimili Aldísar, ásamt lækni, án þess að nokkuð bendi til þess að þörf hafi verið á slíku inngripi.
Aldís greindi frá þessu í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Í nýjasta tölublaði Stundarinnar greindu fjórar konur frá meintri kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins. Elstu sögurnar eru frá sjöunda áratug síðustu aldar en sú nýjasta frá því síðasta sumar. Þá hefur fjöldi kvenna gengið í #metoo hóp á Facebook þar sem frekari sögur af kynferðisbrotum hans og ósæmilegri háttsemi hafa komið fram.
Jón Baldvin lýsti því í samtali við Stundina að umræddar ásakanir eigi rætur sínar að rekja til Aldísar, hún hafi spunnið upp sögur um sig og ástæðan væri sú að hún ætti við geðræn vandamál að stríða. Aldís ritaði í framhaldi af því færslu á Facebook þar sem hún birti vottorð sálfræðingsins Gunnars Hrafns Birgissonar því til sönnunar að ekkert benti til þess að hún væri haldin, eða hefði nokkurn tíma verið haldin, geðsjúkdómi. Hún væri hins vegar haldin einkennum áfallastreitu.
Nauðungarvistun viðbragð við ásökunum
Aldís lýsti því í viðtalinu á Rás 2 að hún hefði verið nauðungarvistuð á geðdeild í sex skipti og rekur hún það í öllum tilvikum til þess að Jón Baldvin faðir hennar hafi nýtt sér stöðu sína og áhrif til að koma því svo fyrir. Umræddar nauðungarvistanir hafi allar verið viðbragð við því að Aldís hafi borið upp á Jón Baldvin kynferðisbrot, bæði gegn sér og í garð annarra.
Aldís lýsti því í Morgunútvarpinu að þegar árið 1992 hafi hún rætt við föður sinn um kynferðisbrot hans, eftir að skólasystir hennar lýsti því fyrir henni að hún hefði vaknað upp við að Jón Baldvin væri að áreita hana kynferðislega. Aldís segir að eftir að hún bar þetta upp á föður sinn, og hótað því að hún myndi kæra hann, hafi hún verið nauðungarvistuð á geðdeild í heilan mánuð. Hún geti ekki annað skilið en að Jón Baldvin hafi borið þar ábyrgð.
Jón Baldvin var á þessum tíma utanríkisráðherra Íslands. Eftir þetta hafi hún fimm sinnum verið nauðungarvistuð á geðdeild og telur Aldís að sökum stöðu sinnar sem ráðherra og síðar sendiherra hafi Jóni Baldvin verið kleyft að hafa samband við lögreglu og heilbrigðisyfirvöld og láta nauðungarvista hana, nánast að vild. Þá hafi Jón Baldvin notað bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann fór fram á það við dómsmálaráðuneytið að Aldís yrði nauðungarvistuð og einnig hafi hann í einhverjum tilvikum undirritað bréfin sem sendiherra.
Segir Jón Baldvin hafa brotið gegn sér í æsku
Í þessu samhengi bendir Aldís á atburð árið 1998 þegar lögregla, ásamt lækni og ónafngreindum ættingja Aldísar, brotið sér leið inn á heimili hennar. Ekkert bendir til þess að nauðsyn hafi borið til þess. Lögregla og læknir hafi því yfirgefið húsnæðið skömmu síðar. Aldís kallaði eftir og fékk lögregluskýrslu um atvikið. „En viti menn, sem ég vissi ekki fyrr en ég las lögreglugögn, að aðferð þessi kallast aðstoð við erlent sendiráð, samkvæmt lögreglugögnum.“
Aldís hefur borið föður sinn þungum sökum, í Fréttablaðinu um helgina og Morgunútvarpinu í morgun. Þar lýsti hún því að árið 2002 hafi hún farið ásamt dóttur sinni til Washington til að reyna að sættast við foreldra sína. Hún hafi eina nóttina þar vaknað upp við að Jón Baldvin hafi setið á rúmstokki hennar. „Það er þá sem rifjast upp fyrir mér hvað hann gerði mér þegar ég var barn.“
Svarar ásökunum með geðveiki dóttur sinnar
Faðir hennar hefur hins vegar haldið því fram að frásagnir kvenna af kynferðislegri áreitni megi rekja til geðveiki elstu dóttur sinnar. „Aldís dóttir mín hefur spunnið þær sögur og það er þyngra en tárum taki. Ég hef svarað því áður og endurtek það ekki,“ sagði Jón Baldvin við Stundina, þegar hann svaraði fyrir frásagnir fjögurra kvenna sem sökuðu hann um kynferðislega áreitni.
Jón Baldvin tók í sama streng árið 2012 þegar hann svaraði fyrir bréfin sem hann sendi Guðrúnu Harðardóttur. „Þetta á ekkert erindi við almenning, ekki frekar en geðveiki dóttur minnar,“ sagði hann þá við DV.
Í kjölfarið steig Aldís fram í viðtali við DV í október 2013, þar sem hún sagði sögu sína. Þar sagðist hún hafa vaknað við það árið 1991 að Jón Baldvin stóð yfir henni. „Skömmu eftir lát ömmu minnar vaknaði ég upp við það um nótt að faðir minn stóð yfir mér þar sem ég lá sofandi heima hjá honum og sagði mér óbirtingarhæf tíðindi um samskipti hans við aðrar konur í fjölskyldunni,“ sagði Aldís þá. „Þetta varð mér algert áfall og hafði þau áhrif að virðing mín gagnvart honum og traust mitt til hans flaug algjörlega út um gluggann. Jón Baldvin kallar þetta sjúka hugaróra mína en mig skortir hugarflug til að skálda þvílíkan óþverra upp. Lát ömmu minnar var mér áfall og þessi viðbjóður sem hann lét dynja á mér var mér annað áfall.“
Þar sagði hún jafnframt að hún hefði hringt í föður sinn og hótað að kæra hann vegna frásagnar annarrar konu af áreitni hans. Eftir það hafi Jón Baldvin farið með hana upp á geðdeild og látið nauðungarvista.
Athugasemdir