Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vísar í landlækni, þegar hún er spurð hvort hún telji tanngreiningar á ungum hælisleitendum samræmast siðareglum lækna. Landlæknir segir tanngreiningar barna og ungmenna byggjast á alþjóðlegum, vísindalega viðurkenndum og gagnreyndum aðferðum. Ekki fáist annað séð en að þeir sérfræðingar sem sinni aldursgreiningum á tönnum vinni samkvæmt faglegum kröfum og af virðingu við viðkomandi einstaklinga. Þá telur landlæknir að slíkar tanngreiningar samræmist siðareglum lækna. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við skriflegri fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar.
Þingmaðurinn spurði ráðherra hvort hann teldi framkvæmd aldursgreininga á umsækjendum um alþjóðlega vernd, þá sérstaklega tanngreininga, samræmast siðareglum lækna. Þá spurði hann hvort heilbrigðisyfirvöld hefðu tjáð afstöðu sína til líkamlegra aldursgreininga, og þá hver hún væri.
Byggist á viðurkenndum aðferðum
Ráðherra svarar því ekki beint hvort hann telji slíkar aldursgreininar samræmast siðareglum en segir að læknum, sem og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, beri samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn, að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma. „Þeim ber að þekkja skyldur sínar og siðareglur, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni, tileinka sér nýjungar er varða starfið og kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma.“
Þá vísar hann í álit landlæknis á því hvort aldursgreining á tönnum samræmist lögum um heilbrigðisstarfsmenn. „Í umsögn landlæknis kemur fram að ekki yrði annað séð en að þeir sérfræðingar sem sinna aldursgreiningum á tönnum vinni samkvæmt faglegum kröfum og af virðingu við viðkomandi einstaklinga. Réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar barna og ungmenna byggist á alþjóðlegum, vísindalega viðurkenndum og gagnreyndum aðferðum. Nákvæmni aldursgreininga á tönnum sé umtalsverð en ekki óskeikul frekar en aðrar læknisfræðilegar rannsóknir. Tók landlæknir fram að hann teldi aldursgreiningar á tönnum samræmast siðareglum lækna.“
Í svari Svandísar Svavarsdóttur kemur fram að ráðherra sé ekki kunnugt um að heilbrigðisyfirvöld hafi tjáð afstöðu sína til líkamlegra aldursgreininga með öðrum hætti.
„Í umsögn landlæknis kemur fram að ekki yrði annað séð en að þeir sérfræðingar sem sinna aldursgreiningum á tönnum vinni samkvæmt faglegum kröfum og af virðingu við viðkomandi einstaklinga“
Umdeildar tanngreiningar
Stundin greindi frá því þann 26. september síðastliðinn að Útlendingastofnun og háskólinn ynnu að gerð þjónustusamnings um aldursgreiningar á tönnum hælisleitenda. Málið er umdeilt innan veggja skólans en auk Stúdentaráðs Íslands hafa 176 starfsmenn og doktorsnemar af Menntavísindasviði, Hugvísindasviði, og Félagsvísindasviði lagst eindregið gegn tanngreiningunum og bent á að þær fari gegn vísindasiðareglum skólans sem kveða á um að rannsakendur skuli ekki skaða hagsmuni þeirra sem tilheyra hópi í erfiðri stöðu. Þá hafa þeir bent á samfélagslegt hlutverk menntastofnana sem og mikilvægi þess að akademískar stofnanir framkvæmi ekki aðgerðir lögvalds á borð við Útlendingastofnun.
Yfirstjórn Háskóla Íslands, hefur neitað beiðni Stundarinnar um aðgang að umsögnum vísindasiðanefndar Háskóla Íslands og jafnréttisnefndar Háskóla Íslands, sem fjalla um álitamál sem tengjast tanngreiningum á ungum hælisleitendum innan veggja skólans. Umræddar umsagnir voru unnar að beiðni Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og eru ætlaðar honum og háskólaráði til ráðgjafar þegar kemur að ákvarðanatöku í tengslum við þjónustusamning skólans við Útlendingastofnun um tanngreiningar. Upplýsingabeiðninni var synjað á þeirri forsendu að umsagnirnar væru vinnugögn og því undanþegin upplýsingarétti.
Aldursgreiningar sem byggja á líkamsrannsóknum á borð við röntgenmyndatökur af tönnum eru afar umdeildar enda eru tannlæknar ósammála um áreiðanleika og vísindalegt gildi slíkra rannsókna. Tannlæknasamtök Bretlands hafa sagt þær „óviðeigandi og ósiðlegar“ þar sem þær geti aldrei gefið nákvæmar upplýsingar um aldur, auk þess sem alþjóðlegar stofnanir og mannréttindasamtök á borð við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðið, ECRE (e. European Council of Refugees and Exiles) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), hafa gagnrýnt þær harðlega.
Athugasemdir