Þótt Gini-stuðullinn sýni minni tekjuójöfnuð á Íslandi en víða annars staðar er ljóst að tekjuhæstu Íslendingarnir hafa aukið hlutdeild sína í heildartekjum landsmanna undanfarin ár.
Hlutdeild tekjuhæsta 0,1 prósentsins jókst úr tæpum 2 prósentum upp í 3,6 prósent milli áranna 2011 til 2017 og var aukningin svipuð hjá tekjuhæsta 1 prósentinu og tekjuhæstu 5 prósentunum.
Eins og Stundin greindi frá í síðasta blaði var tekjuhæsta 0,1 prósent Íslendinga með 60 milljarða í heildartekjur árið 2016, þar af 86 prósent fjármagnstekjur sem bera mun lægri skatta en launatekjur.
Fjármagnstekjur koma einkum í hlut tekjuhæstu og eignamestu landsmanna, en frá 2012 til 2016 var samanlögð raunhækkun launatekna um 24 prósent meðan fjármagnstekjur hækkuðu um 58 prósent.
„Eignir og fjármagnstekjur af þeim aukast í venjulegu árferði örar en atvinnutekjurnar sem þorri almennings þarf að byggja lífskjör sín á. Það virðist auka líkur á aukinni samþjöppun eigna til lengri tíma,“ segja Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor og Arnaldur Sölvi Kristjánsson í bók sinni, Ójöfnuður á Íslandi, sem kom út í fyrra. „Í reynd er það svo á Íslandi samtímans, eins og í flestum öðrum vestrænum samfélögum, að eignamestu þjóðfélagshóparnir hafa alla jafna forskot á aðra.“
Hér að neðan má sjá hvernig hátekjuhóparnir juku hlutdeild sína í heildartekjum samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra sem fjármálaráðuneytið tók saman vegna fyrirspurnar Loga Einarssonar um tekjur og eignir landsmanna í fyrra.
Hlutfall af heildartekjum landsmanna | Efstu 5% | Efsta 1% | Efsta 0,1% |
2011 | 20,7% | 7,0% | 1,8% |
2012 | 21,0% | 7,3% | 1,9% |
2013 | 21,5% | 7,9% | 2,3% |
2014 | 22,0% | 8,6% | 3,0% |
2015 | 22,0% | 8,3% | 2,5% |
2016 | 22,2% | 8,8% | 3,1% |
2017 | 22,6% | 9,4% | 3,6% |
Hafa verður í huga að upplýsingarnar byggja á skattframtölum einstaklinga og miðast við stöðu framtala strax að lokinni álagningu í júní. Þannig er ekki tekið mið af breytingum sem hafa verið gerðar vegna síðbúinna framtala og kærumeðferða.
Af samanburði á annars vegar staðtölum ríkisskattstjóra og listum yfir hæstu skattgreiðendur sem embættið gefur út og hins vegar upplýsingum úr endanlegri skattskrá sem birtust um skamma hríð á vefnum Tekjur.is má ráða að í töflunni séu heildartekjur hátekjuhópa vanmetnar um marga milljarða.
Athugasemdir