Þingmenn Miðflokksins telja að Bára Halldórsdóttir, 42 ára öryrki sem hljóðritaði hávær samskipti þeirra á Klaustri Bar þann 20. nóvember, hafi ekki komið hreint til dyranna. Frásögn hennar sé ótrúverðug og „standist ekki skynsemisskoðun“.
Þetta kom fram í máli Reimars Péturssonar, lögmanns þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Bergþórs Ólasonar og Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Reimar sagði að myndefni úr eftirlitsmyndavélum, bæði Alþingis og Dómkirkjunnar, ætti að geta varpað skýrara ljósi á atburðina 20. nóvember, meðal annars það hvernig Bára hefði leynt því að hún væri að taka þingmennina upp, hvaða aðferðum hún beitti og hversu sterkur ásetningur hennar til brotsins hefði verið. Benti lögmaðurinn á að Bára hefði sagst ekki vera borgunarmaður fyrir greiðslu miskabóta og því væri „ástæða til að athuga hverjir voru með henni“.
Fjórmenningarnir úr Miðflokknum vilja að Bára sæti refsingu og greiði þeim miskabætur vegna „njósnaaðgerðar“ sem þeir telja sig hafa orðið fyrir á Klaustri. Þá hafa þeir kallað eftir því að Persónuvernd sekti Báru. Þetta er ljóst af bréfum sem Reimar Pétursson, lögmaður þingmannanna, hefur sent héraðsdómi og Persónuvernd.
Þingmennirnir vilja að aflað verði gagna til vitnis um mannaferðir og aðstæður á Klaustri bar þann 20. nóvember.
„Skýrslutaka yfir manneskju sem gerðist sek um eða tók á sig sök um hlerun er einungis einn liður í nauðsynlegri gagnaöflun. Við reiknum fastlega með því að ýmislegt eigi eftir að koma fram,“ segir í yfirlýsingu sem Miðflokkurinn birti á Facebook þann 12. desember síðastliðinn.
„Við reiknum fastlega með því að
ýmislegt eigi eftir að koma fram“
Á upptökunum af Klaustri heyrast þingmennirnir tala með niðrandi og klámfengnum hætti um konur, hæðast að samkynhneigðum söngvara og baráttukonu fyrir réttindum fatlaðra og gorta af því að hafa misbeitt valdi við skipun sendiherra.
Athugasemdir