Afleiðingarnar af samtölum sex þingmanna á Klaustri bar 20. nóvember síðastliðinn eru enn að koma fram. Tveir þingmannanna úr samsætinu hafa tekið sér leyfi og aðrir tveir voru reknir úr flokki sínum. Fylgi Miðflokksins hefur hrunið í könnunum. Flestir þingmannanna eru nú einangraðir á Alþingi þegar kemur að samstarfi með öðrum.
Samtöl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Bergþórs Ólasonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar á upptökunni reyndist erfitt að útskýra. Fyrstu viðbrögð sumra voru að gera tilvist upptökunnar sjálfrar tortryggilega. Hafa þingmenn Miðflokksins nú leitað til lögmanns vegna mögulegrar málshöfðunar á hendur Báru Halldórsdóttur, sem tók upp samtöl þeirra.
Áður en fréttir upp úr upptökunum tóku að birtast og í kjölfar fyrstu birtinga, á meðan umfang upplýsinganna var ekki ljóst, létu þingmennirnir ýmis orð falla í formi samtala við fjölmiðla, yfirlýsinga á netinu og einkasamtala. Hafa sumir þeirra verið staðnir að hreinum ósannindum.
Athugasemdir