Sjö katalónskir þingmenn hafa dvalið á bakvið lás og slá í spænskum fangelsum í alls rúmlega tvö þúsund daga frá því að þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfsákvörðunarréttinn fór fram í Katalóníu 1. október 2017. Þeir dvöldu þangað til nýlega í alræmdum fangelsum í útjaðri Madrid, en voru nýlega fluttir til Katalóníu, en vistin þar er lítið skárri. Hverjum þeirra er úthlutað 90 mínútna heimsókn frá fjölskyldu mánaðarlega og að auki fá þeir að ræða við gest einu sinni í viku í 40 mínútur, en það samtal fer í gegnum skothelt gler. Þessi örlög er þau sömu og formenn tveggja katalónskra mannréttinda- og menningarsamtaka þurfa að þola, en þeir hafa setið í fangelsi í yfir 400 daga hvor. Ákærurnar sem nýlega voru gerðar opinberar snúa allar að þátttöku þessara einstaklinga í opinberri ákvarðanatöku og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór í Katalóníu þann 1. október 2017, sem og að efna til uppþota og uppreisnar.
Spænsk stjórnvöld brjóta mannréttindi
Það er ljóst að spænsk yfirvöld brjóta mannréttindi bæði þessara þingmanna af þjóðþingi Katalóna og formanna þessara menningarsamtaka með því að halda þeim í varðhaldi svo mánuðum skiptir og takmarka þannig harkalega bæði tjáningar- og athafnafrelsi þeirra. Fjölmörg alþjóðleg samtök hafa krafist annað hvort tafarlausrar lausnar þeirra allra eða þess að málsmeðferð verði flýtt. Hafa kröfur þess efnis borist frá alþjóða samtökum lögfræðinga, þingmönnum af fjölmörgum þjóðþingum ásamt grasrótarsamtökum víða að úr Evrópu. Amnesty International hefur einnig krafist þess að þessir fangar verði látnir lausir og að réttlát málsmeðferð þeirra sé tryggð. Amnesty International mun fylgjast með komandi réttarhöldum yfir níumenningunum því uppi eru sterkar efasemdir um hlutleysi spænskra dómstóla.
Allir hafa þessir pólitísku fangar reynt að fanga athygli umheimsins og reynt að gera grein fyrir stöðu sinni sem pólitískir fangar á Spáni. Það hafa þeir gert í gegnum félaga sína sem eru í útlegð víðsvegar um Evrópu, þar á meðal í gegnum fyrrverandi forseta Katalóníu, Carles Puidgemont, sem dvelur í Belgíu. Þrátt fyrir það hafa fjölmiðlar, stjórnmálamenn og áhrifafólk í álfunni sýnt þessari stöðu ótrúlegt skeytingarleysi undanfarið ár. Það virðist sem sterk staða Spánar í hinu ýmsa alþjóðasamstarfi og í alþjóðlegu hernaðarbrölti komi í veg fyrir að þjóðþing og meðlimir þeirra tjái sig, þrátt fyrir að kollegar þeirra séu fangelsaðir svo mánuðum skiptir fyrir þingstörf og fyrir það að sækja umboð til kjósenda sinna til að útkljá ágreiningsefni.
Fórna heilsu sinni fyrir réttlæti
Eitt af þeim verkfærum sem þetta fólk hefur reynt að nýta sér er að leita til mannréttindadómstóls Evrópu og mannréttindanefndar Evrópuráðsins. Stjórnlagadómstóll Spánar, sem ásamt hæstarétti Spánar er stjórnað úr bakherbergjum eins mesta valdaflokks nútímasögu Spánar PP (Partido Popular), flokki sem stofnaður var af herforingjum fyrrum einræðisherrans Francisco Franco. Þessi staðhæfing hefur ekki bara verið á allra vitorði um langt skeið heldur kom hún uppá yfirborðið nýlega, þegar lekið var samtölum þingmanna þessa flokks þar sem þeir hreyktu sér af því að hafa styrkt tök sín á dómskerfi Spánar með samningum við minnihlutastjórn Pedro Sanchez, sem nú situr við völd í Madrid. Það hefur einmitt verið PP, arftaki fasistastjórnarinnar, sem hefur lagt hvað mesta fæð á Katalóna síðan konungsbundnu lýðræði var komið á á Spáni 1978.
Erindum þessa fólks hefur öllum verið hafnað af spænskum dómstólum sem hafa kerfisbundið komið í veg fyrir að þessir þjóðkjörnu einstaklingar og formenn félagsamtaka fái áheyrn hjá alþjóðlegum mannréttindadómstólum. Það er skýrt brot á þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Spánarstjórn hefur undirgengist er varða borgarleg og lýðræðisleg réttindi fólks.
Nú hafa fjórir af þeim sem sitja í fangelsi og hafa setið hvað lengst ákveðið að fara í hungurverkfall til að knýja á um réttláta málsmeðferð. Tveir þeirra hafa dvalið í fangelsi í yfir 400 daga og hinir tveir í yfir 250 daga. Þetta eru síðustu úrræðin sem þetta fólk hefur, það er að fórna líkamlegri heilsu fyrir réttlætið. Þetta fólk hefur misst frelsið, en hugur þess og andi er enn sterkur, eins og gengur hjá hugsjónafólki. Þetta fólk trúir á lýðræðið, leikreglur þess og Evrópsk gildi, alþjóðleg lög og skuldbindingar, á samkennd og hluttekningu, sammannleg sjónarmið og réttlæti.
Nú ættu allir þeir íslensku stjórnmálamenn sem deila þessum gildum og hugsjónum með kolllegum sínum, þeim sem dvelja þessa aðventuna fjarri ástvinum sínum, að mótmæla kröftuglega. Ef þeir gera það ekki eru þeir ábyrgir fyrir þessari afskæmingu lýðræðisins og ábyrgir fyrir að „normalisera“ fangelsun á stjórnmála- og hugsjónafólki í okkar heimshluta. Nóg er komið af vandlætingu gegn þjóðum utan okkar innsta hrings í alþjóðlegu samstarfi, því að vandlæting gegn hroðalegri valdbeitingu Spánarstjórnar gegn lýðræðislega kjörnum fulltrúum á katalónska þinginu ætti að standa okkur nærri. Ef við látum það óátalið að vina- og bandalagsþjóð fari fram með þessu offorsi og afskræmingu þá er það á okkar ábyrgð. Við sem samfélag höfum nýlega einsett okkur að upphefja þá skoðun að hreyfi maður ekki andmælum við órétti eða óréttlátri meðferð sem þjóðkjörinn fulltrúi, þá hafi maður fyrirgert trúverðugleika sínum til að gegna því starfi.
Á það ekki líka við í þessu tilfelli?
Athugasemdir