Þingmenn Miðflokksins, þau Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, vilja að Bára Halldórsdóttir, 42 ára öryrki, sæti refsingu og greiði þeim miskabætur vegna „njósnaaðgerðar“ á Klaustri Bar þann 20. nóvember síðastliðinn.
Þetta er ljóst af beiðni sem lögmaður þingmannanna sendi Héraðsdómi Reykjavíkur þann 6. desember síðastliðinn, daginn áður en Bára Halldórsdóttir steig fram og afhjúpaði sig sem uppljóstrarann af Klaustri í viðtali við Stundina.
„Óprúttinn aðili“ sem hafi
skaðað æru þingmanna
Í bréfi Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns kemur fram að „til að málshöfðun með refsi- og bótakröfum geti orðið raunhæf“ sé óhjákvæmilegt að leiða í ljós hvaða „óprúttni aðili“ hafi framkvæmt njósnaaðgerðina. Aðgerðin hafi falið í sér „saknæma og ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu“ þingmannanna. Því er kallað eftir því að fyrirsvarsmenn og starfsmenn Klausturs verði leiddir fyrir dóm til vitnis um mannaferðir og aðstæður á barnum þann 20. nóvember.
Halda fast við beiðni sína
Eftir að viðtalið við Báru birtist í Stundinni föstudaginn 7. desember hafði Reimar samband við Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómara og sagði að þótt nú lægi fyrir nafn þess sem stóð að upptökunum væri engu að síður mikilvægt að sannreyna hvernig atvikum var í raun og veru háttað. „Beiðendur halda því fast við beiðni sína.“
Af þessu má ráða að upplýsingarnar sem birtust í nýjasta tölublaði Stundarinnar – það að uppljóstrarinn er fötluð hinsegin kona sem blöskraði umræða valdhafa um þá hópa sem hún tilheyrir sjálf – breyti engu um fyrirætlanir þingmannanna þess efnis að krefjast peninga frá manneskjunni sem hljóðritaði samskiptin þeirra á Klaustri bar og kalla eftir því að hún sæti refsingu.
Uppljóstrunin hafði víðtækar afleiðingar
Á upptökunum heyrast þingmennirnir tala með niðrandi hætti um minnihlutahópa, hæðast að samkynhneigð þekkts söngvara og gorta af því að hafa misbeitt valdi við skipun sendiherra.
Uppljóstrun Báru hefur dregið dilk á eftir sér. Tveir þingmenn voru reknir úr Flokki fólksins vegna framgöngu sinnar, tveir þingmanna Miðflokksins eru komnir í leyfi, forseti Alþingis hefur beðið þjóðina afsökunar á framgöngu þingmanna, siðanefnd Alþingis hefur verið kölluð saman og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ákveðið að kalla ráðherra og fyrrverandi ráðherra fyrir nefndina vegna ummæla um skipun sendiherra.
Athugasemdir