Sigrún Skaftadóttir, formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, segist þeirrar skoðunar að erfitt verði fyrir Ágúst Ólaf Ágústsson að snúa aftur á þing eftir að lýsing Báru Huldar Beck á framkomu Ágústs Ólafs í sinn garð kom fram í dag. Málið liggi þungt á konum í flokknum.
Ágúst Ólafur birti yfirlýsingu fyrir helgi þar sem hann lýsti því að hann hefði fengið áminningu frá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar vegna ósæmilegrar framkomu í garð konu og hann hyggðist því taka sér leyfi frá þingstörfum í tvo mánuði og leita sér faglegrar aðstoðar. Bára Huld steig fram í dag sem umrædd kona og lýsti málavöxtum á annan hátt en Ágúst Ólafur hafði gert, og mun alvarlegri. Ágúst Ólafur svaraði þeirri lýsingu Báru síðar í dag og sagðist ekki hafa ætlað að rengja frásögn Báru. Misræmi í frásögnum þeirra tveggja megi rekja til mismunandi upplifunar þeirra á umræddum samskiptum.
„Því held ég að það verði afar erfitt fyrir hann að koma aftur“
Sigrún segir að hún hafi ekki aðrar upplýsingar en þær sem birst hafi í fjölmiðlum í dag. „Ég hugsa að eftir að þessar upplýsingar komu fram þá verði erfitt fyrir hann að snúa aftur inn á þing. Á þessari stundu veit ég samt svo sem bara það sem kemur fram í fjölmiðlum. En ég trúi alltaf þolendum sem greina frá og því held ég að það verði afar erfitt fyrir hann að koma aftur.“
Kvennahreyfingin stendur fyrir jólahittingi, bókakvöldi, seinnipartinn í dag. Sigrún segist viss um að þar verði þetta mál rætt en enn sem komið hafi ekki verið ákveðið að boða sérstakan fund vegna málsins. „En þetta brennur heitt á konum í flokknum, ég get alveg sagt þér það.“
Athugasemdir