Ungur hælisleitandi sem vísað var úr landi í byrjun árs er beðinn um að koma aftur til landsins til þess að gefa skýrslu um líkamsárás sem hann varð fyrir. Honum var vísað úr landi skömmu eftir árásina án vitundar verjanda hans og lögreglumannanna sem fóru með rannsókn málsins. Fréttablaðið greinir frá.
Houssin Bsraoi varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Litla-Hrauni í janúar og var fluttur úr landi í kjölfarið. Houssin kom hingað til lands sumarið 2016 ásamt öðrum ungum pilti, Yassine, en þeir földu sig um borð í Norrænu til þess að komast í landið. Báðir sóttu þeir um alþjóðlega vernd og sögðust þeir vera undir 18 ára aldri.
Houssin er nú á vitnalista ákæruvaldsins sem brotaþoli og reynir héraðssaksóknari að flytja hann til landsins til að gefa skýrslu í samráði við önnur stjórnvöld, meðal annars ríkislögreglustjóra, dómsmálaráðuneytið og fulltrúa Íslands hjá Europol. Aðalmeðferð í málinu átti að hefjast í héraðsdómi Suðurlands í gær en var frestað þar sem annar ákærðu mætti ekki til aðalmeðferðar.
Sá er Baldur Kolbeinsson, sem hefur lokið afplánun og er frjáls ferða sinna. Hinn ákærði er Trausti Rafn Henriksson og tekur ákæran gegn þeim til alvarlegustu gerðar líkamsárásar. Trausti neitar sök en Baldur hefur ekki tekið afstöðu til ákærunnar.
Á meðal gagna í málinu er upptaka úr öryggismyndavél af árásinni, sem fram fór í íþróttasal fangelsisins. Baldur var dæmdur árið 2014 fyrir tvær líkamsárásir á útivistarsvæðinu á Litla-Hrauni.
Houssin, sem er frá Marokkó, sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en var synjað um dvalarleyfi. Í framhaldinu reyndi hann að forðast brottvísun til heimalands síns með því að fara um borð í gámaskip á leið úr landi. Hann hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir fjögur tilvik þar sem hann fór um borð í skip og sætti loks ákæru fyrir annað tilvik þar sem hann reyndi hann að komast um borð í gámaskip Eimskipa á leið til Kanada.
Athugasemdir