Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, hefur aldrei verið ritstjóri Glæða, fagtímarits sérkennara, þótt hún haldi því fram á vef Alþingis.
Þetta staðfestir Sædís Ósk Harðardóttir, formaður Félags sérkennara á Íslandi í samtali við Stundina.
Hið rétta er að árin 2011 og 2012 átti Anna Kolbrún sæti í ritnefnd blaðsins ásamt fjórum öðrum. Hermína Gunnþórsdóttir var þá ritstjóri Glæða.
Anna Kolbrún er einn þeirra þingmanna sem hittust á Klaustri bar þann 20. nóvember síðastliðinn og létu gamminn geysa. Stundin, DV og Kvennablaðið hafa fjallað ítarlega um samskiptin sem náðust á hljóðupptöku.
Þetta er ekki eina rangfærslan sem er að finna í ferilskrá Önnu Kolbrúnar á vef Alþingis. Í gær sendi Félag þroskaþjálfa á Íslandi út yfirlýsingu þar sem félagið gerði athugasemd við að Anna Kolbrún hefði kallað sig þroskaþjálfa á þingvefnum.
„ÞÍ hefur staðfestingu frá Landlæknisembættinu um að þingmaðurinn hafi hvorki hlotið menntun sem þroskaþjálfi né fengið starfsleyfi frá embættinu,“ segir í yfirlýsingunni þar sem félagið áréttar að þroskaþjálfi er lögverndað starfsheiti.
Hefur Þroskaþjálfafélag Íslands tilkynnt brotið til landlæknisembættisins, en brot gegn ákvæðum laga um heilbrigðisstarfsmenn og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Athugasemdir