Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, brutu lög um þingsköp með því að fara á Klaustur bar 20. nóvember.
Stundin hefur undir höndum upptöku af samskiptum þeirra, en þingmennirnir voru háværir og vakti hegðun þeirra athygli í vitna viðurvist.
Þennan dag var þingfundi slitið kl. 21:36. Þingmennirnir mættu á barinn rétt eftir að umræðum um fjárlög lauk kl. 20:39, samkvæmt heimildum Stundarinnar. Þá átti enn eftir að ræða tvö mál, vörugjöld af ökutækjum og aukatekjur ríkissjóðs.
Í 65. grein laga um þingsköp segir: „Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.“
Enginn umræddra þingmanna hafði leyfi þennan dag, samkvæmt vef Alþingis. Á upptökunni og ljósmynd, sem heimildarmaður Stundarinnar sendi með þeim, má heyra og sjá að áfengir drykkir voru hafðir um hönd.
Ekki alltaf fullskipað í þingsalnum
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir engin viðurlög vera við brotum á þingskapalögum með þessum hætti. Mæting þingmanna á þingfundi sé með ýmsu móti. „Það er nú allur gangur á því hvernig þetta er framkvæmt,“ segir Helgi. „Það er ekki alltaf fullskipað í þingsalnum. Sérstaklega þegar líður á kvöld hafa menn látið nefndarmenn fyrst og fremst um umræðuna.“
Helgi segir framkvæmd þessa ekki alltaf vera samkvæmt bókstaf laganna. Þingmenn séu oft áfram í þinghúsinu, til dæmis í þingflokksherbergjum eða á kaffistofu eftir atvikum. „Svo verða menn í þessu starfi svolítið að velja og hafna. Þegar mikið erum að vera eru auðvitað langflestir inni í þingsal. Allir sjá þegar sýnt er úr salnum er ekki skipað í hvert sæti,“ segir hann.
Athugasemdir