Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Varoufakis: Íslendingar heppnir að standa utan Evrópusambandsins

Yan­is Varoufa­k­is kynnt­ist skugga­hlið­um Evr­ópu­sam­starfs­ins sem fjár­mála­ráð­herra Grikk­lands en nú berst hann fyr­ir rót­tæk­um breyt­ing­um á um­gjörð ESB. Stund­in spurði Varoufa­k­is um fram­tíð um­bóta­stjórn­mála í Evr­ópu, upp­gang nú­tímafas­isma og efna­hags­vand­ann á evru­svæð­inu. Hann tel­ur að Evr­ópa hefði far­ið bet­ur út úr al­þjóð­legu fjár­málakrepp­unni ef for­dæmi Ís­lands hefði ver­ið fylgt í aukn­um mæli og byrð­um velt yf­ir á kröfu­hafa frem­ur en skatt­greið­end­ur.

Varoufakis: Íslendingar heppnir að standa utan Evrópusambandsins
Uppstokkun á ESB eina lausnin Eina leiðin til að stöðva uppgang nýfasismans í Evrópu er að gera róttækar breytingar á stofnanaumgjörð Evrópusambandsins og evrusamstarfsins. Þetta er mat Yanis Varoufakis sem fékkst til að svara spurningum Stundarinnar um framtíð vinstristjórnmála og evrusvæðisins. Mynd: Shutterstock

„Annaðhvort lýðræðisvæðum við Evrópusambandið eða það liðast í sundur,“ segir Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, stofnandi samevrópsku stjórnmálahreyfingarinnar DiEM25 og frambjóðandi til Evrópuþingsins, í viðtali við Stundina. Það er lífsspursmál, segir hann, að evrópskir vinstrimenn og umbótasinnar nái vopnum sínum á ný og brjóti uppgang öfgahægriflokka á bak aftur.  

„Þetta er stóra áskorunin. Ógnin kemur annars vegar hægra megin frá, frá rasíska hægrinu, og hins vegar frá hinni svokölluðu miðju, kerfinu (e. the Establishment) sem klæðir sig í búning frjálslyndis en tekur sér æ meira vald til að þvinga fram stefnu sem elur á ójöfnuði og óánægju og spilar þannig upp í hendurnar á hægrirasistum.“ 

Við ofurefli að etja

Hagfræðiprófessorinn varð á augabragði einn umtalaðasti og umdeildasti stjórnmálamaður heims í janúar 2015. Eftir að róttæki vinstriflokkurinn Syriza vann kosningasigur í Grikklandi kom það í hlut Yanis Varoufakis að semja við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um lánaskilmála og efnahagslega framtíð Grikkja. 

Hagkerfi landsins var rjúkandi rúst. Helmingur ungs fólks var án atvinnu, félagsleg vandamál grasseruðu sem aldrei fyrr og æ fleiri liðu sáran skort. Aðhaldsaðgerðirnar sem fylgdu björgunaraðgerðum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins höfðu dýpkað kreppuna og landsframleiðsla dregist saman um 25 prósent frá 2008 – álíka mikið og í Bandaríkjunum á tímum kreppunnar miklu.

En það var baráttuhugur í almenningi. Kjósendur höfðu fengið sig fullsadda á undirgefni gömlu valdaflokkanna við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn („þríeykið“ svokallaða (e. Troika)) og þann 25. janúar 2015 veittu þeir Syriza, undir forystu hins unga Alexis Tsipras, óskorað lýðræðislegt umboð til að skipta um kúrs og hverfa frá sveltistefnunni. 

Varoufakis gerði árangurslausar tilraunir til að vinna Evruhópinn – hóp sem samanstendur af fjármálaráðherrum evruríkjanna og fulltrúum þríeykisins – á sitt band með því að útskýra, á mannamáli og með vísan til viðtekinna sjónarmiða á sviði þjóðhagfræði, að kröfur þríeykisins gætu ekki með nokkru móti gengið upp; afkomuáætlanir fyrir ríkissjóð Grikklands væru gersamlega ósamrýmanlegar því yfirlýsta markmiði að Grikkir kæmu hjólum atvinnulífsins á hreyfingu og næðu fram varanlegum efnahagsbata til að geta staðið í skilum við kröfuhafa.

Þegar allt lék í lyndiAlexis Tsipras og Yanis Varoufakis unnu saman í ríkisstjórn eftir kosningasigur Syriza. Þegar kom endanlega í ljós að kröfur Evruhópsins gagnvart Grikklandi voru óhagganlegar, Grikkland þyrfti annaðhvort að framfylgja sveltistefnu eða yfirgefa evrusamstarfið, sinnaðist þeim og Varoufakis sagði af sér.

Þótt Varoufakis sé róttækur vinstrimaður var málflutningur hans ekkert sérstaklega róttækur. Meginstraumshagfræðingar hvaðanæva úr heiminum tóku undir með honum, hvöttu til skuldaafskrifta og að Grikkir fengju svigrúm til að lífga hagkerfið við. 

„Það er ekki hægt að kreista og kreista ríki sem eru í miðri kreppu,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti, aðspurður um vanda Grikklands og evrusvæðisins, í viðtali við CNN 5. febrúar 2015. „Á einhverjum tímapunkti verður að koma til einhver hagvaxtarstrategía svo unnt sé að ná niður halla og greiða skuldir.“ Röksemdir sem þessar máttu sín lítils og á endanum var það pólitíkin og réttur hins sterka sem réð úrslitum. 

Vissu að aðgerðirnar sköðuðu Grikkland

Samningsstaða Grikkja var vonlaus og bankakerfi landsins upp á náð og miskunn Seðlabanka Evrópu komið. Þótt grískur almenningur hafnaði kröfum þríeykisins með 60 prósentum atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 5. júlí 2015 fann Alexis Tsipras sig knúinn til að lúffa fyrir kröfuhöfunum og samþykkja enn einn lánapakkann, með hertum skilyrðum, um áframhaldandi niðurskurðarstefnu. Hinn kosturinn, að ganga úr evrusamstarfinu, var einfaldlega talinn of áhættusamur, jafnvel ávísun á algjöra upplausn grísks samfélags. Yanis Varoufakis sætti sig ekki við þessar málalyktir, taldi þær uppgjöf og svik við kjósendur og sagði af sér að kröfu Tsipras eftir sex mánaða ráðherradóm.

Varoufakis hefur ekki setið auðum höndum eftir að hann lét af embætti. Fyrir tveimur árum stofnaði hann samevrópsku stjórnmálahreyfinguna DIEM25 sem berst fyrir róttækum breytingum á stofnanaumgjörð og efnahagsstefnu Evrópusambandsins. Í fyrra gaf hann út bókina Adults in the Room þar sem hann lýsir viðureign sinni við valdakjarna Evrópusambandsins. Bókin veitir hrollvekjandi innsýn í framgöngu kröfuhafa gagnvart Grikklandi, en frásagnirnar byggja meðal annars á hljóðupptökum af fundum og samskiptum Varoufakis við fulltrúa þríeykisins. 

Haukurinn í EvruhópnumFjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble, talaði fyrir harkalegri sveltistefnu og vildi beita stofnunum ESB gegn velferðarkerfum aðildarríkjanna.

Varoufakis lýsir því hvernig Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, viðurkenndi í einkasamtali að ef hann væri sjálfur í sporum Varoufakis myndi hann ekki gangast undir lánaskilmála þríeykisins, enda ættu aðgerðirnar eftir að valda grísku þjóðinni miska. Þá mun Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafa sagt Varoufakis að efnahagsforskriftin sem þríeykið fór fram á að Grikkir fylgdu myndi aldrei ganga upp. Hins vegar hefðu ráðamenn lagt of mikið í sölurnar til að hægt væri að hverfa frá fyrri stefnu.

Ráðandi öfl innan ESB höfðu pólitíska hagsmuni af því að sýna hörku. Þannig mátti kenna öðrum skuldsettum evruríkjum lexíu, sýna að óhlýðni gagnvart kröfuhöfum yrði ekki liðin og að það væri tilgangslaust fyrir Evrópuþjóðir að kjósa apaketti á borð við Syriza til valda. Eins og bandaríski hagfræðingurinn Paul Krugman komst að orði í bloggfærslu nokkrum dögum eftir afsögn Varoufakis: „Undanfarnar vikur hafa leitt í ljós að það að tilheyra evrusamstarfinu þýðir að ef þú lætur ekki að stjórn geta kröfuhafar lagt hagkerfið þitt í rúst.“ 

Vandræðagemsar, ójafnvægi og hönnunargallar

Þegar skuldakreppan tröllreið evrusvæðinu var sú orðræða ráðandi að Grikkir, Spánverjar, Portúgalir og Írar hefðu einfaldlega eytt um efni fram og þannig stefnt fjármálastöðugleika álfunnar í voða og komið nær gervallri Evrópu í klandur. Með þessu var athyglinni beint frá þeirri staðreynd að rætur evrukreppunnar lágu að verulegu leyti í hönnunargöllum evrukerfisins sjálfs. 

Allt frá því að grunnurinn var lagður að evrusamstarfinu hafði hver hagfræðingurinn á fætur öðrum bent á að það kynni að vera óráð að tjóðra mörg mismunandi hagkerfi niður við einn og sama gjaldmiðilinn. Þýski hagfræðingurinn Rüdiger Dornbusch benti á að með innleiðingu evrunnar væru ríki svipt möguleikanum á að nota gengisbreytingar sem hagstjórnartæki og vinnumarkaðnum eftirlátið það hlutverk að gera ríki samkeppnishæf með tilheyrandi atvinnu- og framleiðslumissi. Martin Feldstein og Milton Friedman voru sama sinnis og bentu á að það að láta mörg ólík þjóðfélög undirgangast sameiginlega peningamálastefnu og svipta þau sjálfstæðri stefnu á sviði gengismála gæti kallað á sársaukafulla aðlögun launa og verðlags, skapað sundrungu og kynt undir pólitískri spennu.

Að sama skapi var umgjörð Seðlabanka Evrópu gagnrýnd; Robert Solow og Franco Modigliani bentu á að ofuráherslan á verðstöðugleika gæti haldið aftur af hagvexti og ýtt undir atvinnuleysi á evrusvæðinu. Umgjörð evrusamstarfsins vakti líka áleitnar spurningar um fjármálastöðugleika: Seðlabankar ríkjanna gegndu ekki lengur hlutverki lánveitanda ríkjanna til þrautavara en um leið var lagt bann við því að hinn samevrópski seðlabanki lánaði fé beint til ríkissjóða aðildarríkja ESB. 

Blásið í bólur

Með upptöku evrunnar um aldamótin og aukinni samleitni vaxta á myntsvæðinu lækkuðu raunvextir gríðarlega í suðurhluta Evrópu. Löndin fengu aðgang að stærri og dýpri fjármálamörkuðum, áhættuþóknun tengd gengissveiflum hvarf og lánsfé streymdi til Spánar, Ítalíu, Írlands, Portúgals og Grikklands. Þetta stórjók einkaneyslu og innflutning og kynti undir húsnæðis- og eignaverðsbólum. Um leið hélst verðlag og launakostnaður hár og samkeppnisstaða útflutnings- og samkeppnisgreina versnaði.

Kerfið skapaði ójafnvægiVaroufakis hefur tekist betur en mörgum að útskýra hönnunargalla evrukerfisins á mannamáli.

„Þegar eitt ríki er iðnvæddara en annað og framleiðir meira af verðmætum útflutningsvörum skapast ójafnvægi í milliríkjaviðskiptum. Fljótandi gengi getur haldið ójafnvæginu í skefjum. En þegar gengið er njörvað niður til að draga úr óvissu fyrirtækja, hvað þá þegar sameiginlegur gjaldmiðill er tekinn upp, þá gerist það að bankar fara að kynda undir ójafnvæginu, magna upp bæði viðskiptahallann og viðskiptaafganginn,“ útskýrði Varoufakis í ræðu árið 2015

.„Lánsfjárstreymið til landa eins og Grikklands var í raun hin hliðin á peningi viðskiptaafgangs Þýskalands. Skuldir Grikkja og Íra við þýsk fjármálafyrirtæki viðhéldu útflutningi Þjóðverja til Grikklands og Írlands. Þetta er eins og að kaupa bíl af bifreiðasala sem lánar þér líka fyrir bílnum svo þú hafir efni á að kaupa hann.“

Hér er myndband frá VOX-fréttaveitunni þar sem evrukreppan er útskýrð ágætlega.

Þýskum bönkum bjargað í nafni samstöðu með Grikklandi

Þetta var vítahringur og hlaut að enda með ósköpum. Þegar alþjóðlega fjármálakreppan skall á skrúfaðist fyrir lánsfjárstreymið til Suður-Evrópu. Ójafnvægið sem hafði byggst upp í milliríkjaviðskiptum á evrusvæðinu umbreyttist í allsherjar evrukrísu þar sem víxlverkun hækkandi vaxta og fallandi lánshæfismats magnaði upp skuldavandann í hverju ríkinu á fætur öðru.

Grikkland var gott sem gjaldþrota árið 2010. Í stað þess að gangast við því – viðurkenna að vandinn væri óviðráðanlegur, endurskipuleggja og afskrifa skuldir og leita raunhæfra leiða til að reisa hagkerfið upp úr öskustónni – var ráðist í björgunaraðgerðir sem fólust í því að ríki Evrópusambandsins, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reiddu fram 146 milljarða evra. 

Þjóðfélag skorið niðurÆ fleiri reiða sig á matargjafir og ölmusu í Grikklandi eftir sveltistefnu undanfarinna ára. Heimilisleysi, fátækt og félagsleg vandamál hafa rokið upp úr öllu valdi. 

Lánsféð rann nær rakleitt til kröfuhafa Grikkja, einkum þýskra og franskra banka. Í október 2011 skuldaði ríkissjóður Grikklands þýskum bönkum 91,4 milljarða evra. Fimm mánuðum seinna, eftir björgunaraðgerðirnar, hafði ríkissjóður Grikklands greitt niður 99 prósent af skuldunum, og áður en árið 2012 var á enda var gríska ríkið skuldlaust við franska banka.

Án björgunaraðgerðanna gagnvart Grikklandi hefðu ríkisstjórnir Þýskalands og Frakklands líklega þurft að veita þarlendum bankastofnunum enn ein neyðarlánin. „Þetta var fegurðin á bak við grísku björgunaraðgerðirnar, að minnsta kosti fyrir Frakkland og Þýskaland. Við björgun franskra og þýskra banka var byrðinni velt yfir á skattgreiðendur í ríkjum sem eru jafnvel fátækari en Grikkland, t.d. Portúgal og Slóvakíu,“ segir Varoufakis í bók sinni Adults in the Room

Evrópuþjóðum att hver gegn annarri

Varoufakis talaði gegn björgunaraðgerðunum af mikilli hörku áður en hann varð fjármálaráðherra. Hann benti á að með því að hrúga nýjum skuldum ofan á hinar ósjálfbæru ríkisskuldir Grikkja með skilyrði um harða aðhaldsstefnu myndi kreppan dýpka. Með því að flytja skuldir úr bókum einkabanka yfir á evrópska skattgreiðendur væri ríkjum Evrópusambandsins att hvert gegn öðru án þess að vandi skuldsettu ríkjanna væri leystur eða bragarbót gerð á hönnunargöllum evrukerfisins.

Björgun Grikklands breytti eðli skuldanna; áður voru þær við bankastofnanir, einkaaðila sem var fyrst og fremst umhugað um að fá eins mikið af peningum sínum til baka og hægt væri, en nú skuldaði Grikkland ríkissjóðum og yfirþjóðlegum stofnunum sem áskildu sér rétt til að segja Grikkjum fyrir verkum og fóru fram á niðurskurð, skattahækkanir, brunaútsölu ríkiseigna, skerðingu lífeyris og aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Evrópumál

Veikt evrukerfi spilar upp í hendurnar á stóru ríkjunum
ViðtalEvrópumál

Veikt evru­kerfi spil­ar upp í hend­urn­ar á stóru ríkj­un­um

Bald­ur Þór­halls­son stjórn­mála­fræði­pró­fess­or seg­ir að ut­an­rík­is­stefna Ís­lands á ár­un­um eft­ir hrun hafi ein­kennst af við­leitni til að tryggja Ís­landi efna­hags­legt skjól. Hann tel­ur við­brögð ESB við skulda­vanda Grikkja hafa af­hjúp­að galla á evru­kerf­inu þar sem veik­ur stofn­an­arammi gerði Þýskalandi kleift að stjórna ferð­inni út frá eig­in hags­mun­um.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár