Kjörstjórn Sjómannafélags Íslands hefur hafnað framboði Heiðveigar Maríu Einarsdóttur til formanns og þeim listum meðframbjóðenda sem hún skilaði. Þetta kemur fram í fundargerðum kjörstjórnarinnar.
Framboði B-lista, sem Heiðveig fór fyrir, er hafnað af nokkrum ástæðum. Lista hafi aðeins verið skilað í stjórn og varastjórn, en ekki til stjórnar matsveinadeildar eða trúnaðarmannaráðs, eins og lög hafi kveðið á um. Þá sé Heiðveig ekki félagsmaður í Sjómannafélaginu og hafi ekki greitt í það síðastliðin þrjú ár. Loks hafi tilskyldum fjölda meðmælenda ekki verið náð.
„Af öllum framangreindum ástæðum leiðir, að framboð B-lista til stjórnar í félaginu uppfyllir ekki skilyrði laga félagsins til mótframboðs og telst listinn því ekki vera lögmætur,“ segir í fundargerð kjörstjórnar. „Þar sem aðeins einn lögmætur listi, A-listi stjórnar félagsins, hefur borist til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar úrskurðar kjörstjórn að þeir menn sem þar eru tilnefndir teljast vera sjálfkjörnir í stjórn félagsins, stjórn matsveinadeildar og trúnaðarmannaráð, til samræmis við önnur ákvæði laga félagsins.“
Athugasemdir