Lántökur Orkuveitu Reykjavíkur eru eðlilegur hluti í fjárstýringu fyrirtækisins, að mati Gylfa Magnússonar, hagfræðings og varaformanns stjórnar þess. Fjárhagsstaða fyrirtækisins hafi batnað og lán hafi verið greidd niður á sama tíma og gjaldskrá hafi lækkað og arður verið greiddur út. „Að túlka þetta sem svo að OR hafi tekið lán til að greiða út arð kallar á einstaklega einbeittan vilja til útúrsnúnings,“ skrifar Gylfi á Facebook síðu sína.
Tilefni skrifa Gylfa er frétt sem prýddi forsíðu Fréttablaðins í dag með fyrirsögninni: Segir Orkuveituna slá dýr lán fyrir arðgreiðslu. Í fréttinni var haft eftir Hildi Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmanni í Orkuveitunni, að hún teldi alvarlegt að fyrirtækið „slái dýr lán gagngert í þeim tilgangi að greiða arð í hendur stjórnmálamanna“.
Vísar Hildur til láns sem Orkuveitan tók í lok árs 2016 hjá Íslandsbanka sem hún segir að hafi verið á óhagstæðum kjörum. Markmið lántökunnar hafi verið að hækka svokallað veltufjárhlutfall Orkuveitunnar sem sé skilyrði fyrir arðgreiðslum til eigenda þess, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar. Í fréttinni er haft eftir Ingvari Stefánssyni, framkvæmdastjóra fjármála Orkuveitunnar, að Orkuveitunni hafi verið skylt að hækka veltufjárhlutfallið og lánið hafi verið einn liður í því.
Gylfi segir lántökuna hafa verið á ágætum kjörum miðað við lán í kjörum og hafa átt sér nokkurra vikna aðdraganda. „Það væri nærtækara að fagna því að fjárhagsstaða OR hafi batnað svo mikið að hægt sé bæði að lækka gjaldskrá og greiða út arð en halda samt áfram að lækka skuldir hratt. Það er einmitt það sem hefur verið gert undanfarið,“ skrifar Gylfi.
Arðgreiðslur samþykktar í eigendastefnunni
Í tilkynningu frá Brynhildi Davíðsdóttur, formanni stjórnar Orkuveitunnar, kemur fram að gjaldskrár fyrirtækisins hafi lækkað undanfarin misseri, auk þess sem greiddur hafi verið út arður af rekstrinum. „Í tilefni ummæla stjórnarmanns í fjölmiðlum í dag bendi ég á að í eigendastefnunni, sem samþykkt var einróma í öllum þremur sveitarstjórnum eigenda fyrirtækisins, er kveðið á um að reksturinn skuli skila eigendum arði,“ segir Brynhildur.
Brynhildur segir að arður sé ekki greiddur út nema skilyrði séu uppfyllt, en þau séu almenningi aðgengileg á vefnum. „Arðgreiðslur eru því eðlilegur þáttur útgjalda Orkuveitu Reykjavíkur og er gert ráð fyrir þeim í fjárhagsspám OR, sem eru öllum aðgengilegar. Fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur, þar á meðal lánsfjármögnun, tekur mið af fyrirsjáanlegum tekjum og gjöldum og fjárhagslegum markmiðum í rekstrinum. Sú lántaka, sem sætir gagnrýni í fjölmiðlum í dag, var í fullu samræmi við allt ofangreint,“ segir Brynhildur.
Hildur bregst við orðum Brynhildar í færslu á Facebook í dag. „Það er eftirtektarvert þegar óháðir stjórnarmenn OR bera í bætifláka fyrir þá ákvörðun hluthafa um greiða arð í hendur stjórnmálamanna. Þar er stjórnarmaðurinn kominn lóðbeint á hálan pólitískan ís,“ skrifar Hildur.
Hildur nátengd ritstjórn og útgáfufélagi Fréttablaðsins
Frétt Fréttablaðsins byggir mestmegnis á tilvitnunum í Hildi sjálfa. Ekki er rætt við stjórnendur Orkuveitunnar eða fulltrúa meirihlutans í stjórn fyrirtækisins. Aðeins er rætt við Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóra fjármála Orkuveitunnar, um tengsl lántökunnar við svokallað veltufjárhlutfall.
Hildur hefur sterk tengsl við ritstjórn og útgáfufélag Fréttablaðsins. Útgefandi Fréttablaðsins, Kristín Þorsteinsdóttir, er tengdamóðir Hildar. Einn ritstjóra blaðsins, Ólöf Skaftadóttir, er mágkona Hildar. Þá situr eiginmaður Hildar, Jón Skaftason, í stjórn Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins. Ekki er getið um þessi tengsl í fréttinni.
Athugasemdir