Ágæta Svandís, eins og þú veist skrifaði Kristín I. Pálsdóttir færslu á fésbók í gær þar sem hún gagnrýnir þrennt í starfi SÁÁ, fjáröflun hjá almenningi, tilraunir til þess að fá aukið fé frá hinu opinbera og uppbyggingu SÁÁ. Orð hennar ættu ekki að koma neinum á óvart vegna þess að hún hefur verið talskona Rótarinnar sem eru ágæt samtök kvenna sem hafa verið gagnrýnin á störf SÁÁ. Þau eru ekki í sjálfu sér ástæða þess að ég drep niður penna heldur hitt að þú, ráðherra heilbrigðsmála á Íslandi, gerðir þau að þínum með því að læka færsluna. Það er með öllu fordæmalaust að heilbrigðisráðherra veitist á þennan hátt að stofnun sem sinnir sjúkum í landinu. Það er erfitt starf og krefst mikillar fórnfýsi að hlúa að fíklum í fráhvörfum sem er aðalverkefni Vogs og ekki á það bætandi fyrir starfsfólk að þurfa á sama tíma að takast á við skítkast frá æðsta yfirmanni heilbrigðismála í landinu. Nú skulum við skoða gagnrýni Kristínar á þættina þrjá í starfi SÁÁ sem þú gerðir að þinni:
1. „Eins og ég hef áður nefnt hér finnst mér PR-fjáröflunarstarf heilbrigðisstofnana hvimleið afleiðing einka/félagasamtakarekninnar heilbrigðisþjónustu. Fáir slá SÁÁ út í þessu.“
Svar: Auðvitað er það hvimleitt fyrir bæði almenning sem verður fyrir tilraunum til fjáröflunarinnar og heilbrigðisstofnunina sem gerir tilraunina. Þetta betl verður á köflum óþolandi fyrir báða aðila. Í tilfelli SÁÁ gerði þessi leiðinda fjáröflun það hins vegar að verkum að Vogur gat á síðasta ári sinnt 700 innlögnum fleiri en hann hefði getað ef hann hefði eingöngu verið rekinn fyrir fé frá sjúkratryggingum. Guði sé lof slá fáir SÁÁ út í fjáröflun frá almenningi vegna þess að sumar af þessum 700 innlögnum björguðu lífum og flestar juku lífsgæði sjúklinga og aðstandenda.
„Ég er smeykur við að afstaða þín markist af einhvers konar misskilningi á sósíalískri hugmyndafræði“
2. „Í hvert sinn sem unnið er að fjárlögum upphefst vein um langa biðlista. [...] Mér fannst ágætt að Birgir aðstoðarmaður ráðherra kæmi inn á það hversu léleg vísbending biðlistar eru um fjárþörf heilbrigðisstofnana, á heilbrigðisþinginu í gær.
„… það er mjög mikilvægt að við komumst út úr þeim hugsunarhætti að biðlistar séu sjálfkrafa ákall á meira fjármagn. Víða í erlendum löndum, nágrannalöndunum þá er fólki og heilbrigðisstofnunum refsað fyrir of langa biðlista vegna þess að þeir geta líka verið vegna þess að við erum með lélegt skipulag …“
Svar: Að ofan agnúast þú út í fjáröflun SÁÁ frá almenningi og hér út í tilraunir þeirra til þess að fá ríkið til þess að fjármagna starfsemina. Það eina sem þér virðist þekkjast er að það dragi saman starfsemina að hætti hins opinbera og hætti að sinna öllum þessu sjúklingum. Orð Birgis um biðlista eru rétt í því samhengi sem hann setti þau en röng í samhenginu við biðlista Vogs. Auðvitað eru þeir ekki sjálfkrafa ákall á meira fjármagn en þeir eru óyggjandi sönnun um skort á þjónustu sem getur ýmist átt rætur í lélegu skipulagi eða of litlu fjármagni. Biðlistinn á Vogi á ekki rætur sínar í lélegu skipulagi vegna þess að á Vogi fer fyrst og fremst fram afeitrun sem tekur sinn tíma og verður ekki flýtt með neinum þeim aðferðum sem þekkjast í dag. Hver sjúklingur þarf tíu daga þótt sumir hverfi á braut eftir skemmri tíma gegn ráðum lækna.
3. „Þrátt fyrir þetta eru samtökin nýbúin að fara í heilmikla uppbyggingu án þess að nokkur þarfagreining hafi farið fram. Engin stefna mótuð, bara byggt og gert ráð fyrir óbreyttu þjónustumódeli og undanfarin 40 ár.“
Svar: SÁÁ hefur stefnu sem var mótuð við stofnun samtakanna sem er sú að sinna fíklum sem þurfa og vilja meðferð eins vel og kostur er á. Ríkið hefur hins vegar lengi verið án annarrar stefnu í málefnum fíknisjúkdóma en þá að minnka þjónustuna eins mikið og það kemst upp með. Þess vegna, meðal annars, hefur þörfin fyrir þjónustu SÁÁ verið að aukast og augljóst að hún hrekkur ekki til þrátt fyrir uppbygginguna heilmiklu sem virðist pirra þig. Það er hins vegar mikilvægt að framkvæma þarfagreiningu til þess að komast að því hversu miklu þurfi að bæta við svo dugi.
Það getur varla talist skynsamlegt af þér, heilbrigðisráðherra, að veitast að félagasamtökum sem hafa undir höndum nær alla þá bráðameðferð sem stendur til boða við sjúkdómi sem er banvænastur meðal ungs fólks á Íslandi. Ég er smeykur við að afstaða þín markist af einhvers konar misskilningi á sósíalískri hugmyndafræði um einkarekstur og ríkisrekstur sem hefur ekkert með þetta mál að gera eða skynsamlegri gagnrýni vinkvenna þinna í Rótinni á hugmyndafræði sumra innan SÁÁ sem hefur heldur ekkert með þetta mál að gera. Þetta snýst um að reka kröftuga starfsemi á Vogi sem er afeitrunar sjúkrahús sem fíklar þurfa að komast inn á þegar þeir vilja afeitrast og eftir það þiggja meðferð sem gæti átt sér stað á hinum ýmsu stofnunum í samfélaginu. Þetta er lífsbjargarmál.
Athugasemdir