Ekki verður boðað til félagsfundar í Sjómannafélagi Íslands þrátt fyrir beiðni félagsmanna þar um. Þetta segir Jónas Garðarsson, sitjandi formaður félagsins, í tilkynningu sem hann sendi frá sér í dag. Alls 163 einstaklingar skrifuðu undir áskorun til stjórnar um að boða til félagsfundar vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem komin er upp í félaginu. Lög félagsins kveða á um að félagsfundur skuli haldinn ef hundrað eða fleiri félagsmenn fara fram á slíkt. Jónas fullyrðir hinsvegar í tilkynningu sinni að einungis 52 þeirra sem skrifuðu undir séu í raun félagsmenn í félaginu.
Beiðni um félagsfund var lögð fram í kjölfar háværrar gagnrýni á hendur Sjómannafélags Íslands fyrir að hafa vikið Heiðveigu Maríu Einarsdóttir, sjómanna og viðskiptalögfræðingi, úr félaginu á þeirri forsendu að hún hefði skaðað hagsmuni félagsins með gagnrýni sinni. Heiðveig María, sem hugðist bjóða sig fram til formanns, hafði meðal annars bent á misræmi í lögum félagsins og gagnrýnt það hvernig þeim hafi skyndilega verið breytt á vefsíðu þess með þeim afleiðingum að hún var ekki lengur kjörgeng.
„Félagið verður ekki yfirtekið með baktjaldamakki og áhlaupi utanaðkomandi fólks“
Í beiðni þeirra 163 sem skrifuðu undir yfirlýsinguna kom fram að þeir telji mikilvægt að félagsfundur komi saman í því skyni að félagsmenn geti tekið afstöðu til þess hver séu gildandi lög félagsins og til að leiðbeina stjórn Sjómannafélags Íslands í því efni áður en lengra sé haldið. „Máli okkar til stuðning vísum við til réttmætisreglunnar og til mikilvægis þess að ekki leiki vafi á gildandi lögum í félaginu.“ Þá fara þeir fram á að Heiðveig María verði kölluð á fundinn.
Sem fyrr segir fullyrðir Jónas að einungis 52 af þeim 163 sem skrifuðu undir kröfuna séu félagsmenn í félaginu og því beri stjórninni ekki að kalla til félagsfundar. „Skrifstofa Sjómannafélags Íslands hefur nú borið þessar 163 undirskriftir saman við félagaskrána. Innan við þriðjungur undirskriftanna, eða 52 einstaklingar, eru félagsmenn. Hinir eitt hundrað og ellefu eru það ekki.“ Þá endurtekur hann ásakanir sínar á hendur Heiðveigu Maríu sem hann segir hafa borið fram upplognar sakir á forystu félagsins „og skaðað það með vísvitandi og því miður áþreifanlegum hætti.“
Athygli vekur að Jónas er einn skrifaður fyrir tilkynningunni en þar þvertekur hann fyrir að boðað verði til félagsfundar. „Það verður ekki boðað til félagsfundar í Sjómannafélagi Íslands á grundvelli þessara undirskrifta. Hins vegar verður trúnaðarmannaráð félagsins sem tók ákvörðun um brottvikningu Heiðveigar Maríu kallað saman fljótlega. Um kjörgengi í stjórnarkosningum þarf hins vegar ekki að ræða. Brottvikningin skiptir engu máli hvað það varðar. Þar eru lög félagsins um hið minnsta þriggja ára félagsaðild afar skýr. Félagið verður ekki yfirtekið með baktjaldamakki og áhlaupi utanaðkomandi fólks.“
Athugasemdir