Kostnaðurinn við skóflustungu að nýjum meðferðarkjarna Landspítalans við Hringbraut nam tæpri hálfri milljón króna. Nítján nýjar skóflur sem keyptar voru vegna athafnarinnar kostuðu tæpar hundrað þúsund krónur.
Þetta kemur fram í svari Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra NLSH, við fyrirspurn Stundarinnar. Átján hagsmunaaðilar tóku skóflustungu við athöfnina, þar á meðal ráðherrar, aðilar úr háskólasamfélaginu og forystufólk fagfélaga heilbrigðisstarfsfólks. Hver skófla kostaði 4.635 kr. án virðisaukaskatts og geyma hagsmunaaðilarnir hver sína skóflu, að sögn Gunnars.
Kostnaður við svið, hljóðkerfi og öryggisgæslu nam alls 297.500 kr. Þá hlaut skólahljómsveit Kópavogs styrk í ferða- og tónlistarsjóð sem nemur 100 þúsund krónum, en 40 börn komu að athöfninni.
Meðferðarkjarninn verður stærsta byggingin í Landspítalaþorpinu og gegnir lykilhlutverki í starfsemi Landspítalans sem bráða- og háskólasjúkrahúss. Byggingin verður tekin í notkun árið 2024.
Athugasemdir