Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu finnur ekki leyfi Hvals hf. fyrir fjórum skutulbyssum sem hafa verið notaðar við langreyðarveiðar við Íslandsstrendur. Ekkert eftirlit virðist vera með vopnunum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Hvalveiðar Hvals hf. eru nú til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi. Kærði félagið Jarðvinir vegna veiða Hvals á blendingshval í sumar. Var óskað eftir gögnum um eftirlit og leyfi fyrirtækisins fyrir skutulbyssum Hvals, 90mm Kongsbert-skutulbyssum sem sérhannaðar eru til hvalveiða.
Svo virðist sem ekkert eftirlit sé með vopnunum. Leyfi fyrir þeim finnst ekki á pappírsformi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en skip fyrirtækisins komu til landsins á árunum 1964 og 1965. Vopnin hafi því nú verið skráð í rafræna skotvopnaskrá Ríkislögreglustjóra.
Þá segja hvorki Vinnueftirlitið né Samgöngustofa að eftirlit með vopnunum sé á þeirra könnu. Vinnueftirlitið hefur þó eftirlit með sprengihleðslunum sem í byssurnar fara, þar sem þær falla undir reglugerðir um meðhöndlun sprengiefna.
Athugasemdir