Í byrjun októbermánaðar vantaði enn starfsfólk í ríflega 55 stöðugildi við leikskóla Reykjavíkurborgar. Á sama tíma voru 139 börn, sextán mánaða og eldri, á biðlista eftir leikskólaplássi. Enn bíða um 300 börn eftir vist á frístundaheimili þar eð enn hefur ekki tekist að ráða 79 starfsmenn stil starfa. Staða mönnunarmála í grunnskólum borgarinnar versnaði þá frá fyrri mánuði. Tölurnar sem um ræðir eru fengnar dagana 3. til 5. október.
Þettta kemur fram í tölum sem Stundin óskaði eftir frá Reykjavíkurborg. Lítið hefur þokast í ráðningarmálum leikskólanna milli mánaða, 13. september síðastliðinn vantaði starfsfólk í rúmlega 62 stöðugildi og því hefur aðeins tekist að manna 7 stöðugildi milli mánaða. Staðan er mismunandi eftir borgarhverfum, verst er hún í Miðborginni, Hlíðum og Vesturbæ en þar á eftir að ráða í 23,5 stöðugildi. Í þeim hverfum bíða 36 börn eftir leikskólavist. Athygli vekur að þó ekki vanti starfsfólk í nema 12,5 stöðugildi í Laugardal og Háaleiti bíða engu að síður 39 börn eftir að fá pláss á leikskóla þar. Búið er að ráða í tæp 98 prósent stöðugilda.
Staðan versnar í grunnskólunum
Þá á eftir að ráða í rúm 20 stöðugildi í grunnskólum borgarinnar, þar af 8 kennarastöður og stöður 8 stuðningsfulltrúa. Staðan þar hefur versnað milli mánaða en 17. september síðastliðinn vantaði starfsfólk í 16,5 stöðugildi í grunnskólunum. Staðan þar hefur því versnað um tæp fjögur stöðugildi frá fyrri mánuði. Engu að síður eru 99 prósent stöðugilda grunnskólanna mönnuð.
Á biðlista eftir vist á frístundaheimili eru nú 293 börn, borið saman við 532 börn á biðlista 12. september síðastliðinn. Enn á eftir að ráða í tæp 39 stöðugildi, alls 79 starfsmenn. Það þýðir að enn á eftir að manna 11 prósent allra stöðugilda á frístundaheimilum.
Athugasemdir