Börn Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, hafa stefnt móður sinni fyrir dómstóla. Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Samkvæmt heimildum Stundarinnar standa deilurnar um arf. Það hefur þó ekki fengist staðfest frá málsaðilum.
Lögmaður barnanna sem Stundin ræddi við sagði að samkomulag væri milli málsaðila um að tjá sig ekki um innihald stefnunnar eða önnur málsatvik. Ekki væri komin dagsetning á aðalmeðferð fyrir dómstólum.
Vigdís sagði sömuleiðis í samtali við Stundina að hún hyggðist ekki tjá sig um málið. „Það var ákveðið milli okkar lögmanna í morgun að þar sem þetta væri fjölskyldumál, sem verið væri að leysa og varðar ekki almenning, þá myndi enginn tjá sig um málið.“
Vigdís eignaðist tvö börn með eiginmanni sínum, sem hún skildi við árið 2002. Hann lést árið 2010. Börn þeirra, sem stefna Vigdísi, eru nú á fullorðinsaldri. Vigdís er sjálf lögfræðingur, en lögmaður hennar í málinu er Guðmundur Ágústsson hæstaréttarlögmaður.
Athugasemdir