Ársreikningaskrá hefur fellt út ársreikning Útvarps Sögu fyrir árið 2017. Eftir yfirferð ríkisskattstjóra reyndist ársreikningurinn sem fjölmiðillinn skilaði inn vera afrit af ársreikningi félagsins fyrir árið 2016.
Arnþrúður Karlsdóttir er eini hluthafi SagaNet - Útvarp Saga ehf. sem rekur útvarpsstöðina. Tap varð á rekstri félagsins um 2,6 milljónir árið 2016, en rekstrarniðurstaða fyrir árið 2017 er ekki þekkt þar sem fullnægjandi ársreikningur hefur ekki borist. Frestur til að skila ársreikningi rann út 31. ágúst síðastliðinn.
Ársreikningaskrá gerir úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum til þess að ganga úr skugga um að innsend gögn séu í samræmi við lög. Að sögn Jónínu Jónasdóttur, sviðsstjóra skráasviðs hjá ríkisskattstjóra, er slíkt ekki alltaf gert um leið og ársreikningur berst. „Staðan er því sú núna að Útvarp Saga ehf. hefur ekki skilað fullnægjandi ársreikningi ársins 2017,“ segir Jónína.
CreditInfo fékk eintak að ársreikningnum áður en hann var felldur út. Á því má sjá að eintakið er eins og ársreikningur félagsins fyrir 2016, merkt sem ársreikningur 2016 og dagsett af Arnþrúði í lok ágúst 2017. „Í ljós kom að reikningurinn uppfyllti ekki ákvæði ársreikningalaga og var hann því felldur út af skránni,“ segir Jónína. „Það er skýringin á því að fram kemur á vef okkar að ársreikningi hafi ekki verið skilað.“
Athugasemdir