B
orið hefur óvenju mikið á því undanfarið að erfingjar óski eftir fresti á skiptalokum dánarbúa. Ástæðan er sögð frumvarp ellefu þingmanna Sjálfstæðismanna þar sem lagt er til að erfðafjárskattur verði lækkaður og þrepaskipting á skattstofninum tekin upp.
Þetta kemur fram í umsögn frá Sýslumanninum á Austurlandi sem hefur biðlað til Alþingis að kveða skýrar á um það í frumvarpinu til hvaða dánarbúa „hin breyttu lög taki og frá hvaða tíma“.
Um er að ræða þingmannafrumvarp sem er allsendis óvíst hvort tekið verði til annarrar og þriðju umræðu á Alþingi, hvað þá samþykkt. Engu að síður virðist framlagning frumvarpsins hafa áhrif á væntingar og hegðun erfingja sem sjá fram á að geta sparað sér skattgreiðslur með því að fá skiptalokum frestað þar til frumvarpið verður að lögum.
„Gera sér væntingar um að skattstofn lækki“
„Nú þegar er farið að bera á því að erfingjar dánarbúa séu farnir að gera sér væntingar um að skattstofn lækki sem aftur leiðir til þess að óskað er eftir fresti á skiptalokum fyrirliggjandi dánarbúa fram yfir þann tíma sem lög kveða á um,“ segir í umsögn sýslumanns. „Með því að kveða á um að lagabreytingin eigi eingöngu við um dánarbú þeirra sem andast við eða eftir gildistöku þeirra er réttaróvissu eytt og enginn þarf að velkjast í vafa um hvaða reglur gilda. Um er að ræða skattalagabreytingu og krafa er uppi um það í íslenskum rétti að engin óvissa sé um skattskyldu manna.“
Í frumvarpi Sjálfstæðismanna um lækkun erfðafjárskatts er lagt til að skatturinn, sem nú er 10 prósent, verði þrepaskiptur. Annars vegar verði greidd 5 prósent af fyrstu 75 milljónum króna af skattstofni dánarbús og hins vegar greidd 10 prósent af skattstofni dánarbús yfir 75 milljónum. Þá er lagt til að fjárhæðarmörk skattþrepa taki árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs.
Eldri borgarar vilja afleggja skattinn
Í umræðum um frumvarpið á Alþingi þann 19. september síðastliðinn benti Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, á að samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra eiga ríkustu 5 prósent heimila að meðaltali 127 milljónir í hreina eign, efsta prósentið á 281 milljón og efsta 0,1 prósentið tæpan milljarð. „Mætti ekki taka þessa hugmynd þingmannsins um þrepaskipt skattkerfi skrefinu lengra og búa til nokkrar hraustlegar prósentur til að ná þeim sem eiga langmest í samfélaginu?“ spurði hann. Óli Björn Kárason, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sagði þá að Andrés væri að tala fyrir eignaupptöku. „Ég er í hjarta mínu á móti því að það sé lagður á erfðafjárskattur,“ sagði Óli.
Erfðafjárskattar eru við lýði í flestum ríkjum OECD og sums staðar mun hærri en á Íslandi þótt víða séu líka há skattleysismörk. Frönsku hagfræðingarnir Thomas Piketty og Emmanuel Saez héldu því fram í fræðigrein fyrir fáeinum árum að hagkvæmasta skatthlutfall (e. optimal tax rate) erfðafjárskatts væri á bilinu 50 til 60 prósent og í skýrslu sem unnin var fyrir OECD árið 2012 er bent á að skattlagning erfðafjár og eigna sé síður til þess fallin að draga úr hagvexti heldur en bein skattlagning tekna. Þá hafa margir litið til erfðafjárskatts sem mikilvægs verkfæris til að draga úr ójöfnuði auðs og tækifæra.
Landssamband eldri borgara hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp Sjálfstæðismanna þar sem því er haldið fram að „erfðaskattur sé mjög ósanngjörn skattlagning“ í ljósi þess að um tvísköttun sé að ræða. „Landssamband eldri borgara telur að stefna eigi að því að erfðafjárskattur heyri sögunni til.“
Athugasemdir