Hrun frænka er mjög snobbuð og vill ekki rifja upp þegar hún fékk taugaáfallið í den.
Þá hittum við hana úti á götu, fáklædda og skjálfandi af hræðslu. Hún minnti okkur á frændsemina, að við værum öll saman í þessu, tautaði samhengislaust að við ættum að standa saman sem fjölskylda, Guð blessi Ísland og allt það. Okkur þótti vænt um það og reyndum að fyrirgefa henni þótt hún hefði alltaf gleymt að senda okkur jólakort, aldrei boðið okkur í heimsókn og látið strika okkur úr erfðaskránni.
Sumir uppáhaldsættingjarnir hennar sem áður rigsuðu um í klæðskerasaumuðum jakkafötunum eða brunuðu um á risastórum hummer-jeppum voru núna flúnir til útlanda með ferðatöskur fullar af peningum. Fyrirtækin lentu inni í bönkunum sem afskrifuðu 60 til 70 prósent af skuldum þeirra til að halda þeim í rekstri og eigendurnir gátu varpað öndinni léttar. Öll eignarhaldsfélögin sem höfðu malað gull fyrir eigendur sína voru núna sett í pappírstætarann og skuldir þeirra með. Þau féllu í gleymskunnar dá.
Þau okkar sem voru stórskuldug fengu ekki svona sérmeðferð í bönkunum, húsin voru bara tekin og sett á uppboð og svo áttum við að semja um afganginn af skuldinni við bankann. Og leigja af Gamma.
Við vorum auðvitað svekkt að missa vinnuna og geta ekki borgað af lánunum og svona. En þetta var svosem ekki auðvelt fyrir neinn og eftir því sem tíminn leið var þetta ekki vinsælt umræðuefni. Það vill enginn sitja uppi með ættingja sem eru alltaf að kvarta og kveina.
Þess vegna þögðum við bara.
Okkur þótti samt vænt um að fá að vera með.
Í hruninu vorum við ekki höfð útundan. Okkur var allra náðarsamlegast leyft að hrynja með hinum. Eitt fallegt augnablik í október fyrir tíu árum svifum við öll saman í háloftunum, í frjálsu falli, án þess að hafa hugmynd um hvað tæki við.
Við fórum að hittast, bæði á torgum og í heimahúsum og ræða hvernig heimurinn ætti að líta út. Við vorum að mestu sammála um að allir ættu að hafa nóg að borða og þak yfir höfuðið, öll börnin, bæði fátæk og rík ættu að ganga í góða skóla og allir sem veiktust ættu að geta leitað læknis.
Áður hefðu slíkar hugmyndir þótt argasti kommúnismi og grafa undan þjóðskipulaginu. Í þessu ástandi virkuðu þær nánast skynsamlegar. En það varði svosem ekki lengi.
Útlendingarnir komu aftur með peningana sína. Núna hétu þeir ferðamenn.
Hrun frænka var fljót að braggast aftur og með tímanum komu uppáhaldsfrændurnir heim með peningatöskurnar sínar úr aflandseyjunum. Sumir höfðu setið í fangelsi í nokkra mánuði eða skartað ökklabandi. Þeir sögðu að þetta hefði allt verið vondum útlendingum að kenna. Þeir sögðust vilja leggja sitt af mörkum og þeir sem á annað borð höfðu misst fyrirtækin fengu að kaupa þau aftur á hálfvirði af bönkunum. Þeir urðu aftur ríkir og frægir, elskaðir og dáðir.
Það hafði ekki fækkað í liði milljónamæringa, núna settu lögfræðingar skilanefndanna svip sinn á samkvæmislíf fína fólksins enda höfðu þeir ekki endurskipulagt atvinnulífið ókeypis og enginn svosem að ætlast til þess.
Þau fóru að líta okkur hornauga.
Við sem héldum að við ættum orðið hvert bein í gömlu frænkunni, stóðum fyrir utan afmælisboðið hennar með rauð nefin klesst upp að gluggarúðunni. Núna sáum við hvar endurreistir útrásarvíkingar sneru alikálfasteikunum á grillinu í félagsskap bankastjóra og stjórnmálamanna sem áður lifðu á framlögum gömlu bankanna og gerðu allt sem þeir sögðu þeim að gera. Þeir voru að tala um hvernig þeir hefðu bjargað okkur. Fjölmiðlarnir fylgdu þeim auðsveipir eftir með myndavélarnar sínar og Hrun frænka hlustaði opinmynnt, hreif af sjerrí, með tárin í augunum. Þau voru öll hrunin í það. Það sem þau gátu hlegið saman og skellt sér á lær þegar þau voru að skoða fjölskyldualbúmið. Þarna var Davíð að bjarga litlu barni frá því að hlaupa fyrir bíl og Geir að blása lífi í gamla konu sem hafði dottið í læk. Steingrímur J. fór fyrir björgunarsveit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og frændum Bjarna Ben var bjargað frá því að farast með Sjóði 9.
Frænka fann síðan fullt af milljónum í skúffu í ráðuneytum fjármála og forsætis til að fá Hannes Hólmstein til að flytja ræðu um fortíðina og Ásgeir Jónsson úr áróðursdeildinni í Kaupþingi til að skrifa ræðu um framtíðina.
Hrun frænka þjappaði okkur saman, segja uppáhaldsættingjarnir hrifnir með kökuleifarnar í munnvikunum og svo dregur einhver gardínurnar fyrir.
Ég veit ekki hvort okkur verður nokkurn tímann boðið aftur.
Jú, kannski í næsta hruni.
Athugasemdir