Þann 17. september síðastliðinn opnaði Stúdentaráð Háskóla Íslands fyrir hugmyndasöfnun sem þau kalla „Háskólinn okkar” og snýst verkefnið um að „færa hagsmunabaráttu stúdenta nær öllum stúdentum Háskóla Íslands.”
Á meðal hugmynda sem eru ofarlega á huga stúdenta er aukið úrval vegan fæðu í mötuneyti háskólans, lágvöruverslun með matvæli á háskólasvæðinu og ýmsar hugmyndir sem bæta þjónustu fyrir stúdenta á svæðinu, t.d. með apóteki eða nýrri líkamsræktaraðstöðu.
Í samtali við Stundina lýsir Elísabet Brynjarsdóttir forseti Stúdentaráðs góðu gengi við hugmyndasöfnunina ásamt góðu samstarfi við skólayfirvöld. Hugmyndin byggir á skorti á beinu lýðræði stúdenta og er einnig markmiðið að auka áhuga þeirra á málefnum sem skipta stúdenta máli.
„Ég hef talað við nemendur sem eru kannski ekki á kafi í stúdentapólítíkinni og það sést að fólk hefur mikið til málanna að leggja án þess að vera í einhverri opinberri stöðu innan Stúdentaráðs.“ Hugmyndin hefur verið á stefnuskrá Röskvu en Vaka fjallaði einnig um málið í sinni kosningabaráttu í ár.
Aðspurð um hvort dæmi um beint þátttökulýðræði stúdenta hafi verið framkvæmt síðustu ár þekkir hún ekki til þess, en samskipti Stúdentaráðs við stúdenta hafa verið bætt. Í bland við það að kjósa hugmyndir núna geta stúdentar sett inn rök með eða á móti hugmyndunum.
Allar hugmyndir sem stúdentar senda inn verða settar í farveg og mun Elísabet hitta hvern og einn hugmyndasmið og fara yfir hugmyndina og hvernig auglýsingaherferðin gæti verið framkvæmd. „Það verður alla vega hlustað á allar hugmyndir sem berast.“
Hugmyndasöfnun lýkur mánudaginn 1. október og líður þá vika áður en kosning hefst þar sem ein hugmynd verður valin og auglýsingaherferð gerð úr. Verður hún framkvæmd af Stúdentaráði í samvinnu við hugmyndasmiðinn. Auglýsingin hafi einnig það markmið að hækka raddir stúdenta í samfélaginu og vekja athygli á þeim og hagsmunabaráttu þeirra.
„Ég hvet bara alla til að taka þátt,“ segir Elísabet í lokin. „Sama hversu lítil eða stór hugmyndin er, það mun allt fara í ákveðinn farveg og ég vil að raddir sem flestra heyrist. Hagsmunir stúdenta er eitthvað sem varðar okkur öll.“
Kosning á málefnum hefst 8. október og verður í viku. Hægt er að nálgast hugmyndasöfnunina hér.
Athugasemdir