Framkvæmum einfalda hugartilraun: Ísland stendur frammi fyrir vali. Við getum valið tvær leiðir: leið A og leið B. Við vitum hvaða þjóðir hafa valið leið A og leið B hingað til.
Leið A |
Leið B |
Eritrea Túrkmenistan Úsbekistan Venesúela Íran Líbýa Bólivía Súdan Nepal Kúba |
Svíþjóð Finnland Belgía Hong Kong Írland Bretland Eistland Austurríki Danmörk Lúxemburg |
Svo kemur spurningin: Hvora leiðina viljum við fara? Flestir myndu væntanlega vilja setja Ísland í dálk B.
Dálkarnir lýsa fjárfestingafrelsi samkvæmt hinni heldur íhaldssömu Heritage-stofnun. Dálkur A inniheldur þau lönd þar sem mest höft ríkja þegar kemur að möguleikum útlendinga til að kaupa sér fasteignir og fyrirtæki. Dálkur B inniheldur þau lönd þar sem frelsið í þessum efnum er mest. Auðvitað er alltaf spurning um hvað sé orsök og afleiðing en það virðist í það minnsta sem fjárfestingafrelsi og hagsæld eigi það til að haldast mjög í hendur.
Viljum við að Ísland verði eins og Kanarí?
Það virðist vera að myndast einhver stemning í þjóðfélaginu í þá veru að banna útlendingum að kaupa sér jarðir, hús eða fyrirtæki á Íslandi. Eitt innlegg inn í þessa umræðu var fyrirlestur í sumar þar sem varað var við þeirri þróun sem átt hefur sér stað á Kanaríeyjum, þar sem veðrið er gott og margir, sem ekki eru Spánverjar, hafa kosið að eignast húsnæði. Nú eru eflaust margir fletir á því máli eins og öðrum en ég hef komið til Kanarí og ef einhver spyr: „Viljum við að Ísland verði eins og Kanarí?“ þá er er fyrsta svar óneitanlega: „Öhmm ... já?“
Sumum þeirra sem keyra þessa umræðu áfram er annt um að sanna að hægt sé að setja slíkar hömlur á án þess að þær brjóti EES-samninginn og að gera það með nægilega „almennum“ hætti til að þeir þurfi ekki að upplifa sig sem útlendingahatara fyrir að vilja banna útlendingum að kaupa hluti, bara út af því að þeir eru útlendingar.
Þannig koma upp hugmyndir eins og að binda höftin við búsetu, í stað þjóðernis, eða að skilyrða viðskiptin við tiltekna jarðnotkun eftir á. Flestar þessara hugmynda eru vondar. Ef maður sem kann að rækta bygg hættir að rækta bygg og selur jörðina til manns sem kann að reka Legoland þá verður heimurinn ekki verri. Hann verður oftast betri.
Það er engin ástæða fyrir frjálslynt fólk til að láta plata sig út í umræðuna um hvaða takmarkanir á jarðakaupum útlendinga séu tæknilega mögulegar út frá stjórnarskrá, mannréttindasáttmálum, EES-samningnum eða öðrum lögum. Öllum lögum og reglum má breyta og ef ríkisvaldið vill takmarka eignarréttinn þá mun ríkisvaldinu á endanum takast það.
Spurningin er einfaldlega: Af hverju í ósköpunum finnst einhverjum heimur þar sem Íslendingur getur keypt sumarhús á Spáni og Spánverji getur keypt sumarhús á Íslandi verri en heimur þar sem enginn má kaupa hús nema að vera fæddur á réttum stað, með rétt vegabréf?
Athugasemdir