Traust á störfum Alþingis hrundi í mælingum niður í eins stafs tölu við efnahagshrunið. Þúsundir heimila urðu gjaldþrota og fólk streymdi út á götur til að mótmæla veruleikafirrtri og spilltri stjórnmálastétt, sem hafði tekið eftirlitskerfið úr sambandi og stigið trylltan dans með fjárglæframönnum með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Mælitala traustsins hefur reyndar hækkað örlítið síðustu misseri, en það hefur verið mjög grunnt á milli verkalýðsforystunnar og þingheims. Þingmenn senda samtökum á vinnumarkaði reglulega tóninn, meðal annars með yfirlýsingum um að þau eigi ekkert með að vera að segja Alþingi fyrir verkum, valdið liggi allt hjá 63 réttkjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Vinnumarkaðurinn eigi að halda sér innan þessa ramma og semja einvörðungu um kaup og kjör.
Blessaður kaupmátturinn
Það er staðreynd að launahækkanir einar út af fyrir sig ráða ekki öllu, það er hins vegar blessaður kaupmátturinn sem segir allt um stöðu launamanna. Það er einmitt ástæða þess að samtök á vinnumarkaði leggja mikið upp úr að heildarumgjörð kjarasamninga sé mörkuð með þríhliða samningum um að halda krónunni rólegri, verðbólgustiginu lágu og tryggja þannig kaupmátt út samningstímabilið.
Alþingi hefur hins vegar, daginn eftir að launamenn hafa samþykkt nýja kjarasamninga, virt þá að vettugi og breytt frítekjumörkum, sköttum og bótum. Þannig hefur Alþingi kollvarpað öllum þeim forsendum sem aðilar vinnumarkaðar studdust við í útreikningum við gerð kjarasamninganna. Stjórnmálastéttin hefur með þessu háttalagi endurtekið rústað kjarabaráttu launamanna og það hefur bitnað mest á þeim sem minnst mega sín í íslensku samfélagi. Sé litið til ummæla talsmanna samtaka launamanna undanfarið má ætla að sjaldan hafi verið jafnt stirt á milli stjórnmálastéttarinnar og forystu launamanna.
Ríkisstjórnirnar stóðu ekki við stöðugleikasamningana
Í þessu sambandi má benda á hina svokölluðu stöðugleikasamninga sem voru gerðir árin 2009 –2013, þar sem launamenn lögðu með framlagi sínu grunninn að endurreisn samfélagsins. Aðilar voru sammála um að forsenda þess að ná okkur út úr hinni skelfilegu efnahagslegu stöðu yrði að vera samhent átak allra aðila samfélagsins um að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Það væri sársaukaminnsta leiðin við að koma samfélaginu og stöðu heimilanna í þolanlegt ástand. Launamenn stóðu þar við allt á meðan ríkisstjórnirnar stóðu ekki við neitt, þrátt fyrir að hafa undirritað samningana, og breyttu skatta- og bótakerfinu einhliða með þeim hætti að sá árangur, sem verkalýðsfélögin töldu sig vera að ná með sérstökum hækkunum lægstu taxta, hvarf og rann beint í ríkissjóð og ójöfnuður í samfélaginu óx umtalsvert.
Ráðherrar hafa undanfarið mætt í hvern spjallþáttinn á fætur öðrum og lýst því yfir að þeir átti sig ekki á því hvers vegna talsmenn launamanna telji að í vetur verði einhvers konar uppgjör milli launamanna og stjórnvalda. Hvers vegna það sé ekki til staðar traust milli aðila og aðilar á vinnumarkaði séu ekki að trufla ríkisstjórnina. Stjórnmálastéttin hefur hiklaust eignað sér allan samfélagslegan ávinning frá hruninu. Hún hafi einhendis endurreist samfélagið. Það liggur hins vegar fyrir að það eru launamenn sem hafa með framlagi sínu og fórnum skapað þá stöðu sem varð til þess að hægt var að endurreisa íslenska efnahagskerfið.
Ókyrrð má rekja til stjórnmálastéttarinnar
Staðan á vinnumarkaði er í dag mjög viðkvæm og aðkoma stjórnvaldsins mun örugglega hafa mikil áhrif á væntanlega kjarasamningagerð í vetur og það á eftir að gera alla samningagerð seinvirka og ákaflega erfiða. Það er mikil ókyrrð meðal launamanna, eldri borgara og öryrkja, sem rekja má í flestu til aðgerða stjórnmálastéttarinnar undanfarin misseri, en óánægjan hefur hins vegar beinst inn í raðir launamanna, sem hefur leitt til endurnýjunar í forystu í nokkrum stórum stéttarfélögum.
Umræðan hefur beinst sérstaklega að því hversu lágir lægstu taxtar eru, tryggingu kaupmáttar, vaxtastigi og húsnæðiskaupum. Helsta ástæða slakrar stöðu í þessu eru margs konar inngrip stjórnvalda sem hafa eyðilagt það sem stefnt var að við gerð stöðugleikakjarasamninga eftir hrunið. Auk þessa má einnig benda á mikla fjölgun á erlendu vinnuafli í gegnum starfsmannaleigur á undanförnum misserum. Þar eru nýttir lægstu taxtar kjarasamninga sem veldur því að samkeppnisstaða fyrirtækja sem nýta starfskrafta íslenskra launamanna verður mjög erfið. Það dregur sannarlega niður laun sem skilar hins vegar gríðarlegum ávinningi inn í hagkerfið og hefur verið meðal annars forsenda mikils hagvaxtar hér á landi.
Umfjöllun um stöðu launamanna á lægstu töxtum er svo sannarlega þörf. Þar hefur komið í ljós hversu langt stjórnvaldið hefur teygt sig niður í vasa launamanna við að fjármagna innviðina. Sveltistefna síðustu ríkisstjórna hefur orðið til þess að í dag skortir nokkur þúsund milljarða til þess að fjármagna eðlilegt viðhald á vega-, heilbrigðis- og skólakerfunum. Reyndar hafa þessir fjármunir runnið í að greiða upp miklar erlendar skuldir ríkissjóðs. Endurbótum á þessum innviðum hefur einungis verið frestað.
Málflutningur nýrra forystumanna breyttur
Nokkur samtök launamanna hafa kosið sér nýja forystu á þeim forsendum að nú verði að beita öllum vopnum launamanna til þess að ná fram umtalsverðum hækkunum á lægstu töxtum. Þeir sem náðu kjöri hafa vakið væntingar meðal launamanna um ríflegar kjarabætur í vetur. Reyndar hefur málflutningur hinna nýju forystumanna breyst töluvert síðustu vikurnar og nálgast það sem fyrri forysta hélt fram. Í þeirri stefnu var mikið unnið með samþættingu margra þátta sem kallaði á samvinnu við ríkisvaldið í hagsstjórninni. Stökkbreytingar í launahækkunum væru ekki líklegar einar og sér til þess að skila auknum kaupmætti.
Það blasir því við að ef nýrri forystu verkalýðsfélaganna tekst ekki að ná fram umtalsveðum kjarabótum eru verulegar líkur á því að enn meiri reiðialda rísi meðal þeirra sem minnst mega sín. Í þessu samhengi verður einnig að líta til þess hvaða hópar eru á kjörskrá þegar verkfallsaðgerðir og eða niðurstaða kjarasamninga eru bornar undir félagsmenn. Formaður og samninganefnd ráða litlu þegar þær atkvæðagreiðslur fara fram. Þetta er nú einn fyrsti lærdómur nýrrar forystu. Verulegar líkur eru á að þeir sem eru á meðaltekjum og þar fyrir ofan séu ekki líklegir til þess að samþykkja verkföll.
Það voru millitekjuhóparnir sem fóru verst út úr efnahagshruninu, ekki síst af þeim ástæðum að þeir höfðu haft efni á að skuldsetja sig og sátu þar af leiðandi í vonlausri stöðu í skuldasúpunni með helmings skerðingu á launum sínum, eða jafnvel atvinnulausir. Í þessum hópi voru einmitt flestir þeirra sem flúðu landið. Stjórnmálamenn héldu því gjarnan fram að það væri fólkið á atvinnuleysisskránum sem hefði farið af landi, en svo var ekki. Ríkisstjórnir spila reglulega út einhliða yfirlýsingum sem oft eru í engu samhengi við veruleikann og hafa skilað þeim fyrirsjáanlega árangri að allar viðræður botnfrjósa. Næsti vetur verður örugglega ákaflega viðburðaríkur á mörgum sviðum og mun mjög líklega hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir þróun íslensks samfélags næstu misserin.
Athugasemdir