Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmenn Vinstri grænna, gagnrýna harðlega að heræfingar NATO fari fram á Íslandi og segja að þær séu æfing í að drepa fólk. „Ef fleiri tækju skýra afstöðu gegn hernaðarbandalaginu, þá væru þessar morðæfingar ekki reglulega haldnar hér á landi,“ skrifar Kolbeinn á Facebook og Steinunn tekur í sama streng: „Nú berast fregnir af heræfingum á Suðurlandi í næsta mánuði. Það er ein af mörgum ljótum birtingarmyndum þess að Ísland er aðili að Nató.“
Varnaræfing Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, verður haldin á Norður-Atlantshafi, í Noregi og á Íslandi í október og nóvember næstkomandi. Um er að ræða stærstu varnaræfingu bandalagsins frá 2015. Um fjörutíu þúsund hermenn og borgaralegir sérfræðingar munu taka þátt í aðalæfingunni í Noregi, sem hefst 25. október og stendur til 7. nóvember. Fyrst fer hins vegar fram smærri æfing á Íslandi undir merkjum Trident Juncture 2018. „Hún verður haldin þann 16. október í Sandvík, nærri Höfnum í Reykjanesbæ, og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 400 manna bandarískt landgöngulið æfir lendingu í Sandvík en um 120 hundrað landgönguliðar verða fluttir með þyrlum á öryggissvæðið þar sem æfð verða viðbrögð við árás á stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
„Friðarpólitík og andstaða við hernað hefur alltaf verið ein af grunnstoðum minnar pólitísku sannfæringar“

„Friðarpólitík og andstaða við hernað hefur alltaf verið ein af grunnstoðum minnar pólitísku sannfæringar,“ skrifar Kolbeinn Proppé, þingmaður Vinstri grænna, á Facebook. Hann segist hafa verið félagi í Samtökum hernaðarandstæðinga frá því hann hafði aldur til, setið þar í miðnefnd og skrifað í og verið í ritnefnd Dagfara.
„Ég hef ekki tölu á þeim mótmælum gegn hernaðarbrölti sem ég hef tekið þátt í á ævinni og ég náði í skottið á Keflavíkurgöngunum. Ég áskil mér allan rétt til áframhaldandi mótmæla og nú verða heimatökin hæg, þar sem 400 hermenn verða á mínum heimaslóðum í Þjórsárdal. Heræfingar eru ekki spennandi leikur fólks með framúrstefnuleg tól. Þetta er æfing í að drepa annað fólk. Við, sem metum líf annarra, eigum að vera á móti slíku, enda á maður ekki að drepa annað fólk.“ Kolbeinn segir að æfingin á Íslandi sé afleiðing af því að aðrir flokkar á Alþingi séu hlynntir áframhaldandi veru Íslands í NATO. „Ef fleiri tækju skýra afstöðu gegn hernaðarbandalaginu, þá væru þessar morðæfingar ekki reglulega haldnar hér á landi.“

Steinunn Þóra Árnadóttir er einnig ósátt með heræfinguna og birtir mynd sem tekin var fyrir 17 árum þegar hún og fleiri friðarsinnar trufluðu heræfingar sem haldnar voru í Henglinum.
„Andstaðan við stríð og hermennsku er öðru fremur það sem rak mig út í pólitík. Fátt er ógeðfelldara en heræfingar – því þrátt fyrir það hvernig reynt er að kynna þær snúast þær þegar öllu er á botninn hvolft um það að æfa sig í því að drepa aðrar manneskjur,“ skrifar Steinunn og bætir því við að heræfingar séu sóun á fjármunum og hafi mengandi og skaðleg áhrif á náttúru og lífríki.
„Frá því að ég byrjaði i pólitík hef ég talað fyrir því að Ísland segi sig úr Nató. Því miður hefur það verið minnihlutasjónarmið á þingi. Ég mun samt halda áfram að tala fyrir friði og gegn hernaðarhyggju og því sem henni fylgir.“
Athugasemdir