Unnið er að því að fá nýjan fjárfesti inn í flugfélagið WOW air sem myndi leggja félaginu til tugi milljóna evra. Óljóst er þó hversu stóran hlut umræddur fjárfestir myndi eignast í félaginu á móti Skúla Mogensen, forstjóra þess, en hann er sem stendur eini hluthafinn í WOW air. Samhliða er stefnt að því að klára skuldabréfaútboð félagsins en unnið hefur verið að því undanfarnar vikur.
Fréttablaðið greinir frá þessu og fullyrðir jafnframt að erlendir fjárfestar séu búnir að gefa vilyrði fyrir kaupum á skuldabréfum að virði 45 milljónum evra að lágmarki. Lágmarksstærð útboðsins er nú sögð 50 milljónir evra, eða sem jafngildir um 6,5 milljörðum króna. Vonast er til að ljúka megi útboðinu í dag.
Samkvæmt sömu frétt hefur norska verðbréfafyrirtækið Pareto tryggt fjármuni upp á um 35 milljónir evra í útboðinu og Fossar markaðir hafa náð samkomulagi við bandarískan fjárfestingarsjóð um að hann skrái sig fyrir 10 milljónum evra.
Miðað við þessar fréttir má gera ráð fyrir að takast megi að forða félaginu frá falli en samkvæmt heimildum var talin raunveruleg og alvarleg hætta á því fyrir skemmstu að félagið færi í þrot, með ýmsum alvarlegum afleiðingum fyrir íslenska hagkerfið.
Athugasemdir