Stúdentaráð Háskóla Íslands telur ljóst að stjórnarflokkarnir ætli að svíkja loforðin sem fram komu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að fjármögnun íslensks háskólastigsins náði meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 og meðtaltali Norðurlanda árið 2025.
„Til þess að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka útgjöld um þrjá milljarða til háskólastigsins á næstu tveimur árum. Til þess að ná meðaltali Norðurlandanna þyrfti háskólastigið um það bil tveggja milljarða aukningu árlega til ársins 2025,“ segir í umsögn Stúdentaráðs um fjárlagafrumvarp ársins 2019 sem ríkisstjórnin kynnti í gær.
„Raunhækkun háskólastigsins fyrir árið 2019 er um 705 milljónir (1,6%) og fjármálaáætlun 2019-2023 gerir ráð fyrir um 2,7 milljarða viðbót næstu fimm árin til háskólastigsins í heild sinni. Það liggur því í augum uppi að ríkisstjórnin ætlar sér hvorki að standa við þau loforð að háskólar Íslands nái meðaltali OECD-ríkjanna né Norðurlandanna á tímabilinu.“
Heildargjöld háskólastigs árið 2019 eru áætluð 46.688,9 milljónir króna í fjárlagafrumvarpinu og aukast um 705 milljónir á föstu verðlagi fjárlaga 2018, eða sem svarar til 1,6 prósenta. Þegar tekið er tillit til áhrifa almennra launa- og verðlagsbreytinga hækka útgjöldin um 2,2 milljarða milli ára, eða sem svarar 5 prósentum.
Stúdentaráð bendir á að á Norðurlöndunum eru heildartekjur háskóla á ársnema að meðaltali 4,4 milljónir á ári en á Íslandi aðeins 2,6 milljónir. Nemendur á Íslandi fái því um 1,8 milljónum krónum minna. Af fjárlagafrumvarpinu sé ljóst að fjármagn á hvern nemanda muni ekki aukast nema fækkun nemenda á háskólastigi eigi sér stað, svo sem með aðgangstakmörkunum.
Athugasemdir