Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 13,2% í flugi til og frá Íslandi á milli áranna 2016 og 2017. Losun í iðnaði jókst lítillega, eða um 2,8%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun í dag.
Upplýsingarnar byggja á uppgjöri á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Alls gerðu fimm íslenskir flugrekendur upp heimildir sínar og bar Icelandair ábyrgð á meira en helmingi losunarinnar. Losun WOW Air jókst einnig nokkuð á milli ára. Heildarlosun í flugi sem fellur undir kerfið var 813.745 tonn CO2 ígilda, en í iðnaði var losunin 1.831.667 tonn af CO2 ígildum. Einungis er um að ræða losun vegna flugs innan EES og er Ameríkuflug ekki innan gildissviðs kerfisins.
Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda gegna lykilhlutverki í aðgerðum Evrópusambandins gegn loftslagsbreytingum. Rekstraraðilum er úthlutað losunarheimildum, en það sem flugrekendur og rekstraraðilar losa umfram endurgjaldslausar losunarheimildir þurfa þeir að kaupa heimildir á markaði og er kerfinu þannig ætlað að vera hvati til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Athugasemdir