2377 tekjuhæstu framteljendur til skatts, eða tekjuhæsta 1% Íslendinga, voru allir með yfir 26,3 milljónir króna í árstekjur árið 2017. Tekjuhæstu 10% framteljenda þénuðu yfir tæpar 11,2 milljónir króna á mann. Tekjulægstu 20% Íslendinga voru hins vegar með árstekjur undir 3 milljónir á mann.
Þetta kemur fram í gögnum um heildartekjur sem Hagstofan birti á föstudag. Í gögnunum er framteljendum til skatts skipt í tíu jafn stóra hópa frá tekjulægstu til tekjuhæstu. Ekki eru birtar tölur um heildartekjur hverrar tekjutíundar heldur aðeins um mörkin milli þeirra, þ.e. tekjur tekjuhæsta framteljandans í hverjum hóp fyrir sig. Jafnframt eru birt gögn um tekjuhæstu 5% og tekjuhæsta 1% Íslendinga. Um heildartekjur er að ræða, þ.e. atvinnutekjur, fjármagnstekjur og aðrar tekjur.
1% hækkað um minnst 4,6 milljónir
Séu upplýsingar úr gögnum Hagstofunnar núvirtar kemur í ljós að heildarlaun manneskju við mörk tekjulægstu 20% framteljenda hafa hækkað um 38% síðustu fimm ár. Meðallaun hafa hækkað um tæp 26% og standa nú í 6,4 milljónum króna á ári. Laun manneskju við mörk 10% tekjuhæstu hafa hækkað um 19% og laun við tekjuhæsta 1% um 21%.
Í krónum talið hefur þó manneskja við mörk tekjuhæsta 1% framteljenda hækkað mest, eða um 4,6 milljónir króna á ári. Manneskja við mörk hæstu 10% hefur hækkað um 1,8 milljón á ári. Meðal framteljandinn hefur aðeins hækkað um 1,3 milljónir króna á ári og manneskja við lægstu 20% mörkin um 700 þúsund á ári.
Athugasemdir