Á árunum 2015 til 2017 létust 42 manns á Íslandi vegna ofneyslu ópíumskyldra lyfja. Lyfjaflokkurinn var sá langbanvænasti á tímabilinu, en alls létust 85 manns vegna eitrana á tímabilinu samkvæmt upplýsingum úr dánameinaskrá embættis landlæknis. Ofneysla löglegra lyfseðilsskyldra lyfja olli fleiri dauðsföllum en ofneysla ólöglegra lyfja.
26 manns létust á tímabilinu vegna ópíumskyldra lyfja á borð við morfín og kódein. Þá létust 16 til viðbótar vegna svokallaðra gervi ópíóða, en í þeim flokkum eru lyf á borð við Demerol, Tramadol, Fentanyl og lyf sem eru notuð í viðhaldsmeðferð, svo sem methadone og buprenorphine.
Í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í dag var fjallað um í aukningu á notkun ungs fólks á lyfseðilsskyldum lyfjum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu upplýsti í júlí um að 20 mannslát hafi verið til rannsóknar þar sem lyfseðilsskyld lyf komu við sögu. Lyfjateymi landlæknis hefur til skoðunar 29 matsgerðir það sem af er ári þar sem greint er frá lyfjum eða efnum sem fundust í látnum einstaklingum.
18 manns létust vegna ofneyslu örvandi lyfja
Í dánarmeinaskrá kemur einnig fram að 13 manns létust á árunum 2015 til 2017 vegna örvandi efna í flokki amfetamíns og rítalíns (methylphenidat). 5 manns létust af ofneyslu kókaíns á tímabilinu. Sögulega séð hafa þessir flokkar lyfja verið þeir algengustu þegar kemur að neyslu í æð, en samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ hefur neysla ópíumskyldra lyfja í æð verið að aukast.
4 létust á tímabilinu vegna ofneyslu kvíðastillandi lyfja í flokki benzodiazepine, en slík lyf eru meðal annars markaðssett undir nöfnunum Tafil, Rivotril, Mogadon, Lexotan og Diazepam. Enginn lést af notkun kannabis eða ofskynjunarlyfja svo sem LSD eða psilocybin sveppa samkvæmt skránni. Upplýsingar úr dánarmeinaskrá það sem af er 2018 eru ekki fáanlegar frá embætti landlæknis.
Athugasemdir