Margir sem áttu leið um Laugaveg á meðan Reykjavík Pride hátíðarhöldin stóðu yfir ráku augun í áróðursskilti fyrir framan skemmtistaðinn Bravó á horni Klapparstígs. Skiltið var merkt Sjálfstæðisflokknum, en formaður SUS segir það ekki hafa verið á vegum flokksins.
„Einkavæðing innviða samfélagsins er lang, lang besta leiðin .... fyrir okkur“ stóð á skiltinu. Auk þess prýddi skiltið fálki, einkennistákn Sjálfstæðisflokksins, og kosningamerki flokksins XD.
„Þetta er ekki á vegum flokksins,“ segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS), í svari við fyrirspurn Stundarinnar. Nokkur umræða varð um skiltið á samfélagsmiðlum, sem þótti ósmekklegt í tilefni hátíðarhaldanna. Nú virðist ljóst að það hafi verið sett upp af einhverjum sem sigldi undir fölsku flaggi.
Athugasemdir