Hórmónar útgáfutónleikar
Hvar? Gaukurinn
Hvenær? 24. ágúst kl. 21.00
Aðgangseyrir: 1.500 kr.
Femíníska pönksveitin Hórmónar fagnar í kvöld útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar, en sveitin vann Músíktilraunir 2016 og hefur síðan þá troðið upp á öllum helstu hátíðum landsins. Búast má við kraftmiklum hljóðfæraleik og opinskáum söngtextum um flókin kynjahlutverk og sambönd, reiði og þrá, pólitíska rétthugsun, fegurð og ljótleika. Og fullt af pönki.
Seeing Believing Having Holding

Hvar? i8
Hvenær? 18. ágúst–27. október
Aðgangseyrir: Ókeypis!
Verk fimm bandarískra listamanna eru sýnd á þessari síðsumarssýningu, en þau eiga það öll sameiginleg að vera áþreifanleg samsett verk og myndir sem vekja efasemdir í huga áhorfandans um eðli þeirra. Áferðir og ásýndir verkanna eru í mótsögn, sem er í senn ádeila á stjórnmálaumhverfi Bandaríkjanna.
Árstíðir – útgáfutónleikar

Hvar? Húrra
Hvenær? 24. ágúst kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2.500 kr.
Hljómsveitin sem varð heimsfræg 2013 fyrir að flytja „Heyr himna smiður“ a capella á þýskri lestarstöð er að fagna 5. breiðskífu sinni, „NIVALIS“, sem kom út fyrr í sumar. Á tónleikunum verða leikin vel valin lög af nýju plötunni í bland við eldra efni af 10 ára löngum ferli sveitarinnar.
Innrás III: Matthías Rúnar Sigurðsson

Hvar? Ásmundarsafn
Hvenær? 18. ágúst–4. nóvember
Aðgangseyrir: 1.650 kr.
Innrás er sería þar sem listamönnum er boðið að setja upp verk sín í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar sem safnið er nefnt eftir. Í þessari þriðju sýningu kallast klassísk handverksnotkun upprennandi myndhöggvarans Matthíasar Rúnars á við verk Ásmundar. Matthías heldur leiðsögn með sýningunni 2. september kl. 14.00.
The Vintage Caravan – útgáfutónleikar

Hvar? Iðnó
Hvenær? 31. ágúst kl. 20.00
Aðgangseyrir: 2.500 kr.
Þrímenningarnir í rokksveitinni The Vintage Caravan spila blúsrokk í anda Deep Purple og Led Zeppelin. Þrátt fyrir að enginn meðlimur TVC hafi verið fæddur þegar áðurnefndu sveitirnar hengdu upp hljóðfæri sín spila strákarnir tónlist sína af mikilli innlifun og skemmta sér konunglega við það. Fjórða plata þeirra, „Gateways“, verður spiluð í heild sinni á tónleikunum.
The Blair Witch Project – föstudagspartísýning!

Hvar? Bíó Paradís
Hvenær? 31. ágúst kl. 20.00
Aðgangseyrir: 1.600 kr.
Hrollvekjan frá tíunda áratugnum, „The Blair Witch Project“, vakti mikla athygli fyrir útsmogna auglýsingaherferð og framsækinn upptökustíl sem svipar til heimildarmyndar gerðrar af viðvaningum. Myndin segir af ungu fólki sem hverfur við dularfullar aðstæður í skóglendi en ári síðar finnast myndbandaupptökur sem það gerði um ferðalag sitt.
Án titils – samtímalist fyrir byrjendur

Hvar? Hafnarhús
Hvenær? 6. september kl. 20.00
Aðgangseyrir: 1.650 kr.
Sýningin er hluti af sýningaröð í Hafnarhúsinu fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði þar sem tekið er á móti þeim sem hafa áhuga á að kynna sér samtímalist en eru byrjendur á því sviði. Gestir fá innsýn í heim myndlistarinnar, skoða nokkur verk á sýningum og fá rými til að spjalla og spyrja spurninga um myndlist.
Extreme Chill Festival 2018

Hvar? Harpa, Húrra, Gamla bíó og Fríkirkjan
Hvenær? 6.–9. september
Aðgangseyrir: 8.900 kr.
Á þessari rafmögnuðu en í senn rólegu tónlistarhátíð koma fram 21 sveit á fjórum mismunandi vettvöngum. Á fyrsta kvöldinu, sem haldið er í Kaldalóni, sal Hörpu, koma fram raftónlistarmaðurinn Sillus, hin þýska Katrin Hahner, kontrabassaspilarinn Bára Gísladóttir og draumkennda rafsveitin aYia.
Tilkynningar um áhugaverða viðburði sendist á stundarskra@stundin.is.
Athugasemdir