Fransk-alsírskur viðskiptajöfur, Rachid Nekkaz, hefur lýst því yfir að hann muni borga hverjar þær sektir sem lagðar verða á fólk í Danmörku fyrir að bera búrkur eða niqab. Samkvæmt lögum sem tóku gildi nú um mánaðarmótin er fólki almennt óheimilt að hylja andlit sitt á almannafæri í Danmörku. 29 ára gömul kona var sektuð strax 3. ágúst fyrir að hylja andlit sitt en hún klæddist niqab.
Mjög skiptar skoðanir eru í Danmörku um lögin og mótmæltu hundruð manns þeim í höfuðborginni Kaupmannahöfn 1. ágúst síðastliðinn. Þau sem eru lögunum andsnúin segja að í þeim felist fordómar í garð múslima enda beinist lögin nánast eingöngu að búrkum og niqab, þrátt fyrir að einnig sé óheimilt að hylja andlit sitt með lambhúshettum og ýmis konar grímum öðrum. Lögin eru einkum sögð runnin undan rifjum Danska þjóðarflokksins, sem hefur á stefnuskrá sinni mjög harða afstöðu gegn útlendingum í Danmörku.
Yfirlýsing Nekkaz um að hann muni koma til Kaupmannahafnar 11. september næstkomandi til að greiða sektir við brotum á búrkubanninu, og að hann muni koma til borgarinnar mánaðarlega eftir það í sama tilgangi, hafa farið öfugt ofan í fulltrúa Danska þjóðarflokksins. Talmaður flokksins í útlendinga- og innflytjendamálum vill að ríkisstjórnin geri breytingar á lögunum á þann veg að í stað sekta varði það fangelsi að brjóta þau. Í ofanálag eigi að reikna sektargreiðslurnar sem Nekkaz mun greiða sem tekjur og skattleggja þær konur sem hann greiðir sektir fyrir í samræmi við það. Sem stendur varðar það sekt að jafnvirði 1.000 dönskum krónum, að brjóta lögin. Við endurtekin brot hækkar sektin og við fjórða brot verður hún 10.000 danskar krónur. Það jafngildir 166 þúsund íslenskum krónum.
Rachid Nekkaz stofnaði félagasamtök árið 2010 í þeim tilgangi að greiða sektir þeirra kvenna sem sektaðar væru fyrir að bera búrkur eða niqab. Stofnframlag samtakanna nam tveimur milljónum evra. Nekkaz mun hafa greitt sektir sem lagðar hafa verið á konur í Belgíu, Sviss, Hollandi, Þýskalandi og Frakklandi. Hann hefur lýst því yfir að hann hafi þegar greitt 1.500 sektir af þessu tagi. Í viðtali við danska blaðið Berlingske Tidene segir Nekkaz að hann sé sjálfur mótfallinn niqab en hann hyggist verja frelsi kvenna um heim allan til að klæðast slíkum klæðnaði.
Athugasemdir