Eyþór Arnalds, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borginni og borgarráðsfulltrúi, lýsti sig mótfallinn aukinni áherslu á uppbyggingu félagslegs húsnæðis í Reykjavík í kosningaprófi RÚV í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Í gær lagði hann hins vegar fram bókanir, ásamt fleiri borgarráðsfulltrúum minnihlutans, þar sem fundið er að stöðu félagslegs húsnæðis í Reykjavík og borgin sögð hafa hunsað málaflokkinn um langa hríð.
„Það er hjákátlegt að meirihlutinn ætlar að varpa ábyrgðinni á aðgerðarleysi borgarinnar síðustu árin að fjölga félagslegum íbúðum yfir á ríkið,“ segir í bókun sem borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram ásamt áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. „Þessi meirihluti eins og síðustu tveir virðist algjörlega vera búinn að gleyma því að borgin fer með skipulagsvaldið, sér um lóðaúthlutanir og á Félagsbústaði og gat byggt og keypt litlar íbúðir síðustu árin. Viljinn var hins vegar enginn.“ Í annarri bókun, sem fulltrúi Sósíalistaflokksins stóð einnig að, segir: „Sú staða sem nú er uppi í Reykjavík hvað varðar félagslegt húsnæði er á ábyrgð fráfarandi meirihluta borgarstjórnar. Hvað gera á til framtíðar er góðra gjalda vert en breytir því ekki að þessi málaflokkur hefur verið hundsaður hjá borginni um langa hríð.“
Snæbjörn Brynjarsson, rithöfundur og varaþingmaður Pírata, bendir á það á Facebook að þegar Eyþór tók kosningapróf RÚV í vor og lýsti afstöðu sinni til ýmissa mála lýsti hann sig fullkomlega andvígan frekari uppbyggingu félagslegsra íbúða í Reykjavík. Hér má sjá skjáskot af vef RÚV:
Í bókun frá borgarráðsfulltrúum Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna er bent á að aldrei hafa verið fleiri íbúðir í uppbyggingu í sögu Reykjavíkur. „Hvergi á Íslandi eru framlög til húsnæðismála hærri en í Reykjavík. Á árunum 2018-2022 eru framlögin áætluð upp á 70 milljarða og þar af eru 14,2 milljarðar áætlaðir í ár. Þá fjölgar félagslegu húsnæði ört enda kaupa Félagsbústaðir íbúðir í nær öllum uppbyggingarverkefnum sem nú eru í gangi í Reykjavík með það fyrir augum að stytta til muna biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði,“ segir í bókuninni. „Ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ættu sama hlutfall félagslegra íbúða og Reykjavík þá væru líklega engir biðlistar eftir félagslegu húsnæði. Það væri því æskilegt að sett verði lög um lágmarkshlutfall félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga.“
Athugasemdir