Nýr stjórnarformaður Kadeco, hinn 25 ára gamli Ísak Ernir Kristinsson, nýtur trausts Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra „til að taka þátt í að leiða félagið í þeim verkefnum sem fram undan eru“. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar þar sem óskað var eftir þeim sjónarmiðum og ástæðum sem litið hefði verið til við skipan Ísaks í stöðu stjórnarformanns Kadeco.
Félagið Kadeco er þróunarfélag sem fer með þær fasteignir sem áður voru í umsjá Bandaríkjahers. Samkvæmt sérstökum þjónustusamningi sér félagið um þróun og útleigu þess lands sem áður tilheyrði hernum.
„Fjármálaráðherra tilnefndi Ísak Erni Kristinsson nýjan í stjórn félagsins. Tilnefning ráðherra var með svipuðum hætti og á við um fjölda stjórna í stjórnkerfinu þar sem stuðst er við reglur um hæfi til setu í stjórnum líkt og í fyrirtækjum almennt,“ segir í svari ráðuneytisins.
„Reynsla er kannski ekki aldur. Ég skil að fólk hefur á því skoðanir að 24 ára maður sér orðinn stjórnarformaður í mikilvægu verkefni, mikilvægu fyrirtæki í eigu ríkisins. Ég skil þá gagnrýni,“ sagði Ísak í samtali við Rúv um skipunina. Þá sagðist hann hafa verið í stjórnun, bæði í starfi og af áhuga mjög lengi en einnig virkur í stjórnmálum.
„Fjármála- og efnahagsmálaráðherra er tilbúinn til þess að gefa ungu fólki tækifæri. Ég þakka traust hans og ég ætla að standa undir þeirri ábyrgð og þeim skyldum sem eru lagðar á mínar herðar og ætla að gera eins vel og ég get,“ sagði Ísak Ernir Kristinsson.
Meginverkefnum félagsins lokið
Í tilkynningu Kadeco um aðalfund þess kom fram að félagið hefði selt nánast allar fasteignir sem það hafði í umsýslu sinni. Hins vegar væru ekki uppi áform um að hætta starfsemi þess. „Ljóst er að Kadeco mun ekki starfa áfram í óbreyttri mynd þar sem þeim meginverkefnum sem félagið var sett á stofn til að sinna, það er eignasölu, er lokið. Fram undan er skoðun á hlutverki félagsins við áframhaldandi þróun á landi ríkisins í kringum Keflavíkurflugvöll þar sem meðal annars verður horft til samstarfs Kadeco við sveitarfélög og aðra lykilaðila á svæðinu,“ segir enn fremur í svari fjármálaráðuneytisins.
Ísak tók við formennsku stjórnar af Georg Brynjarssyni hagfræðingi. Sjálfur starfar Ísak sem flugþjónn hjá Wow air auk þess sem hann stundar nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. Laun stjórnarformanns eru 270 þúsund krónur á mánuði.
Ísak hefur verið virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins frá 16 ára aldri. Hann hefur til að mynda gegnt stöðu formanns Heimis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, setið í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna og gegnt formennsku í Sjálfstæðisfélagi Keflavíkur. Þar að auki var hann varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ á síðasta kjörtímabili.
Athugasemdir