Árið er 1992 og ég sit við gamalt túbusjónvarp, sem mamma keypti fyrir fæðingarorlofspeningana sem hún fékk þegar ég fæddist, fjórtán árum fyrr. Í sjónvarpinu er verið að sýna minningartónleika um Freddie Mercury, söngvara bresku hljómsveitarinnar Queen. Mercury hafði látist árið áður eftir erfiða baráttu við alnæmi og í apríl 1992 komu margir helstu tónlistarmenn samtíðarinnar saman til að heiðra minningu hans og til að safna fjármunum í baráttunni gegn sjúkdómnum.
Á Wembley-leikvanginn mættu 72.000 manns en ég sat heima í stofu og hlustaði á brakandi tónlistina úr sjónvarpinu og hugsaði með mér að ég myndi aldrei fá að upplifa neitt eins og þetta í eigin persónu. Og svo komu Guns N‘ Roses á sviðið. Hetjur æsku minnar. Ég var búinn að hlusta svo mikið á Appetite for Destruction kassettuna mína að hún var orðin handónýt. Axl og félagar keyrðu beint í Paradise City af umræddri plötu og ég man ennþá eftir því þegar Axl blés í dómaraflautuna í laginu. Það var hljóð æsku minnar.
Rúmum aldarfjórðungi síðar er ég svo sem búinn að sjá alls konar tónleika, og suma risastóra. Ég sá til dæmis Rolling Stones spila á Glastonbury-hátíðinni árið 2013, fyrir líklega 100 þúsund manns. En ég hafði ekki séð Guns N‘ Roses á sviði. Ekki fyrr en í gær.
Og þvílíkir tónleikar, maður minn. Það væri ábyggilega freistandi fyrir bölsýnismann að benda á að Axl Rose næði ekki lengur háu tónunum og héldi ekki alltaf lagi. En mér dettur ekki í hug að gera neitt slíkt. Ég viðurkenni alveg að ég saup smá hveljur þegar opnunarlagið It‘s so easy byrjaði að hljóma á Laugardalsvelli. Axl vinur minn var ekki alveg með á nótunum í upphafi, en svo var eins og það lagaðist allt og þarna voru þeir komnir. Hetjur æsku minnar stóðu á sviði fyrir framan mig og þúsundir miðaldra Íslendinga með bumbur og hrukkur sungu hástöfum með. Um allan Laugardalsvöll mátti sjá vini og félaga á miðjum aldri gefa háar fimmur, faðmast, pör fóru í þyrlusleik á borð við þá sem þau fóru síðast í þegar þau voru í níunda bekk einhvern tíma á síðustu öld. Allir brostu. Og í miðjunni á þessu öllu stóð ég, með stjörnur í augum og hálfvegis flissandi, að upplifa æskuna aftur. Eina kvöldstund í Laugardal þar sem ég var aftur orðinn 14 ára, ekki lengur að stara á túbusjónvarp heldur að horfa á Guns N‘ Fucking Roses live beint fyrir framan mig. Hvað meira er hægt að biðja um?
Athugasemdir