Fátt er meira rætt þessa dagana en sú gjörð forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, að bjóða forseta danska þjóðþingsins, Piu Kjærsgaard, sem margoft hefur orðið uppvís að því að sýna fólki sem í neyð sinni knýr dyra að dönsku samfélagi „óvirðingu“, að flytja ávarp á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum þann 18. júlí sl.
Á þessu máli er hlið sem litla athygli hefur fengið. Ég get ekki betur séð en Steingrímur hafi farið rækilega út fyrir verksvið sitt með eftirfarandi yfirlýsingu sem birt var á heimasíðu Alþingis og í danskri þýðingu á heimasíðu danska þingsins, þann 19. júlí: „Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.“
Það er svo sannarlega ekki í verkahring forseta Alþingis að leggja huglægan mælikvarða á orð og gjörðir alþingismanna nema þeir gerist sekir við brot á 93. grein þingskaparlaga en þar segir: „Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið, ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert“, og nefna þau ummæli sem hann vítir...“
Hér er greinilega átt við orð sem látin eru falla í ræðustóli Alþingis og getur þingforseti því tæplega leitað skjóls í þessari grein.
Í 52. grein stjórnarskrárinnar segir: „Alþingi kýs sér forseta og stýrir hann störfum þess.“ Um hlutverk forseta er kveðið á um í þingsköpum Alþingis. Þar kemur greinilega fram að forseti er fyrst og fremst fundar- og dagskrárstjóri þingfunda, ábyrgðarmaður á rekstri Alþingis og „hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess“.
Vandi Steingríms er í raun tvíþættur og felst í því að hafa boðið þessum umdeilda einstaklingi og að bíta svo höfuðið af skömminni með því að fara svona rækilega út fyrir verksvið sitt með afsökunarbeiðni vegna meints dónaskapar í garð þessa einstaklings.
Þegar upp er staðið sækja alþingismenn umboð sitt til þjóðarinnar og sitja í hennar skjóli á þingi. Forseta Alþingis, Steingrími J. Sigfússyni, ber að sætta sig við það og ef hann hefur einhverja sómakennd biður hann þingmenn afsökunar á að hafa farið svona rækilega út fyrir verksvið sitt.
Ég geri mér því miður litlar vonir um að hann biðji íslensku þjóðina afsökunar á að hafa boðið Piu Kjærsgaard til hátíðarhaldanna. En hver veit? Kannski sér hann að sér þegar fram líða stundir.
Athugasemdir