Ég vil segja mína sögu af fæðingum á Íslandi frá árinu 1962 til að koma lesendum í betri skilning um þær framfarir sem hafa orðið hér á landi undanfarna áratugi og þær hættur sem stafa af heimsku núverandi ríkisstjórnar.
Ég var 17 ára þegar ég fæddi mitt fyrsta barn. Ég og maðurinn sem síðar varð eiginmaður minn fengum engar leiðbeiningar um kynlíf. Um það var ekki talað á þessum árum.
Eftir að ég fékk hræðilega verki, þá gengin rúma sjö mánuði á leið, var ég flutt með sjúkrabíl á Landakotsspítala. Á fæðingardeildina fékk ég ekki að fara af því að ég var ekki fullgengin með.
Það tók langan tíma, engan skilning og miklar kvalir þar til líkami minn kom sjálfum sér til hjálpar og snéri fylgjunni við svo barnið átti greiða leið út. Enginn á spítalanum hafði gert sér grein fyrir því að fylgjan hefði snúst við og heftað fæðinguna. Mér var einfaldlega gefið verkjastillandi lyf og sagt að vera ekki með þennan óhemjugang.
Sonur minn var ekki með nógu þroskuð lungu og enginn súrefniskassi var til á spítalanum. Ég fékk einfaldlega lækni deilarinnar í heimsókn næsta dag þar sem hann sagði mér að ég hefði fætt fallegan heilbrigðan dreng sem þeim hefði ekki tekist að halda lífi í.
Móðir mín sem mátti ekki vera hjá mér á meðan á þessu stóð heimtaði að fá barnið, en henni var sagt að það hefði verið lagt í kistu hjá konu sem hefði dáið þessa nótt. Móðir mín gafst ekki upp og fékk afhentan son minn sem ég fékk aldrei að sjá en var jarðaður. Og þar sem nunnurnar höfðu skírt hann áður en hann dó þá er hann skráður mitt barn sem látist hafði.
Ég var ung, ég kunni ekki að berjast við kerfið en nunnurnar kunnu heldur ekki á líkama konu sem hefur fætt barn og því var ekkert gert í því að ég fékk mjólk í brjóstin og „stálma“ sem hefur í för með sér hræðilegar kvalir.
Næsta barnið mitt fæddist á fæðingardeild Landspítalans og gekk vel, en sonurinn sem á eftir hinum kom var fæddur í sófa hjá ljósmóður þar sem ekki var pláss á fæðingardeild Landspítalans.
Ég veit að aðeins konur skilja það er ég segi að ég var klippt án deyfilyfja. Mitt síðasta barn var 21 ári seinna tekin með keisara á fæðingdeild Landspítalans og er ég þakklát að hafa komist þar inn árið 1983.
Kannski eftir að þið hafa lesið mína sögu skiljið þið betur hvað það er mikilvægt að hafa ljósmæður sem kunna sín verk. Ég trúi því ekki, þótt þið feður gangið ekki í gegnum þann andlega og líkamlega sársauka sem það er að fæða barn, að þið hafið ekki skilning á því hve mikilvægt það er fyrir konurnar ykkar að hafa góða umönnun á þessum tímum. Karlmenn, standið með konunum ykkar og tryggjum ljósmæðrum þau laun sem þær eiga skilið.
Það er ekki létt að opinbera sitt líf sem ég hef gert hér að ofan en mér er það hjartans mál að við skiljum mikilvægi þess að ekki verði afturför frá þeim árangri sem náðst hefur. Látum ekki skilningssljóa ráðherra ráða hvernig við viljum hafa hlutina. Við skulum ráða því sjálf. Ljósmæður skulu fá sínum kröfum fullnægt. Við skulum í sameiningu sjá til þess.
Athugasemdir