Embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík, heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafa öll veitt neikvæða umsögn um beiðni Hótels Adams um endurnýjun rekstrarleyfis. Ekki verður veitt rekstrarleyfi fyrr en skilað hefur verið öryggis- eða lokaúttekt vegna stækkunar hótelsins sem var samþykkt 2014.
Eins og fram kom fyrr í vikunni rann rekstrarleyfi Hótels Adams út 11. nóvember síðastliðinn, en án slíks leyfis er ólöglegt að reka veitinga- og gististaði. Sótt var um endurnýjun á rekstrarleyfinu í janúar, en samkvæmt lögum 1277/2016 er endurnýjun rekstrarleyfa háð jákvæðum umsögnum sveitarstjórnar, slökkviliðs, heilbrigðisnefndar, byggingarfulltrúa, vinnueftirlits og lögreglu. Heimilt er að gefa út bráðabirgðaleyfi til rekstrar á meðan umsókn um endurnýjun er til meðferðar.
Stundin hafði samband við embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík og fékk þær upplýsingar að embættið hefði veitt neikvæða umsögn um þessa beiðni samstundis þar sem ekki liggja fyrir öryggis- eða lokaúttektir fyrir framkvæmdir sem voru heimilaðar 2014 og vegna athugasemda slökkviliðs frá 2017.
Lokaúttekt er staðfesting embætti byggingarfulltrúa á að framkvæmdum sé lokið og að þær hafi verið gerðar í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, og reglugerðir. „Rekstraraðilinn þarf að óska sjálfur eftir úttekt, en hefur ekki gert það,“ segir í svörum frá embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík til Stundarinnar. „Ekki er hægt að veita umsögn fyrr en öryggisúttekt eða lokaúttekt liggur fyrir eins og áskilið var þegar erindið var samþykkt 2014.“
Stundin hafði samband við heilbrigðisnefnd og slökkvilið og fékk þær upplýsingar að báðar stofnanirnar hefðu gefið neikvæða umsögn í kjölfar umsagnar byggingarfulltrúa. Umsagnirnar eru bindandi, en embætti sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, sem er leyfisveitandi rekstrarleyfis veitinga- og gististaða, getur beðið um nýja umsögn telji embættið ekki rétt að hafna beiðninni.
Í nýju umsögninni geta þessir aðilar „þá veitt jákvæða umsögn með þeim skilyrðum að úr annmörkum verði bætt innan tiltekins frests. Verði ekki bætt úr annmörkum innan frestsins, að mati umsagnaraðilans, ber leyfisveitanda að afturkalla leyfið án fyrirvara og aðvörunar. Umsagnaraðilum ber að taka afstöðu til þess hvort skilyrðum sé fullnægt innan framangreindra tímamarka.“
Nánar er fjallað um málefni hótelsins í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
Athugasemdir