Húsnæðiskostnaður er sífellt stærri liður í útgjöldum heimilanna, samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar. Af heildarútgjöldum meðalheimilis í mars árið 1998 var húsnæðiskostnaður 17,4%, en var í sama mánuði 2018 orðinn 34,5%. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Flokks fólksins.
Í svarinu eru breytingarnar bornar saman við þróunina í fimm öðrum löndum. Aðeins á Bretlandi hefur vægið aukist meira á sama tímabili, en það jókst úr 13,3% árið 1998 í 30,1% í fyrra. Á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum hefur vægið annað hvort lækkað eða aukist lítillega.
Breytingar á vægi annarra liða vísitölunnar hafa verið mun minni síðustu 25 ár. Matar- og fatakostnaður hefur minnkað nokkuð sem hluti af útgjöldum heimilanna, en vægi útgjalda vegna heilsu, hótela og veitingastaða, og ferða og flutninga aukist lítillega.
Vísitala neysluverðs (100%) | Nóvember 1992 | Mars 2018 |
Matur og drykkjarvörur | 17,7% | 11,2% |
Áfengi og tóbak | 3,5% | 2,4% |
Föt og skór | 6,3% | 3,6% |
Húsnæði, hiti og rafmagn | 18,5% | 34,5% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,8% | 3,9% |
Heilsa | 2,5% | 3,9% |
Ferðir og flutningar | 15,2% | 16,9% |
Póstur og sími | 1,1% | 2,3% |
Tómstundir og menning | 13,4% | 9,8% |
Menntun | 1,4% | 0,7% |
Hótel og veitingastaðir | 4,0% | 5,1% |
Aðrar vörur og þjónusta | 9,6% | 5,8% |
Breytingar á neyslugrunni hafa ekki áhrif á vísitöluna
Hagstofan endurskoðar neyslugrunn sinn árlega til þess að auka gæði mælinga þannig að neyslusamsetningin endurspegli sem best raunverulega neyslusamsetningu meðalheimiliseiningar í landinu. Um 1.200 heimili eru dregin í úrtak árlega vegna könnunarinnar. Þau halda nákvæmt bókhald um útgjöld sín á tveggja vikna tímabili auk þess að svara spurningum um stærri útgjöld yfir lengra tímabil.
Breytingar á vægi geta bæði verið vegna kostnaðarauka sem neytendur hafa af neyslu úr neysluflokknum en einnig vegna lægri kostnaðar við aðra neysluflokka. Breyting á grunni vísitölu neysluverðs hefur ekki bein áhrif til hækkunar eða lækkunar vísitölunnar.
Athugasemdir