Guðbjörg Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélags Vestmannaeyja og einn stærsti hluthafi útgáfufélags Morgunblaðsins til margra ára, greiddi eignarhaldsfélagi sínu Fram ehf. rúmlega 3,2 milljarða arð út úr fjárfestingarfélaginu ÍV fjárfestingarfélag sem heldur utan um eignarhlut hennar í Ísfélaginu í fyrra. Árið þar á undan tók hún um milljarð út úr fjárfestingarfélaginu. Þetta kemur fram í nýlegum ársreikningi sem fjölmiðlar hafa fjallað um að undanförnu.
Samkvæmt upplýsingum úr álagningarskrám ríkisskattstjóra sem Stundin tók saman í byrjun júní þénaði Guðbjörg 165 milljónir króna í fjármagnstekjur árið 2017. Árið var að ýmsu leyti erfitt fyrir íslenskan sjávarútveg vegna sjómannaverkfallsins og styrkingar krónunnar. Ísfélagið er í áttunda sæti yfir þau útgerðarfyrirtæki sem ráða yfir mestum aflahlutdeildum, en hagnaður þess dróst saman um 1,8 milljarð milli ára. Engu að síður tók Guðbjörg sér rúmlega tvöfalt meiri arð úr fjárfestingarfélaginu sem fer með hlut hennar í Ísfélaginu heldur en árið á undan. Fleiri útgerðareigendur gerðu vel við sig, en eins og Stundin greindi frá á dögunum þénuðu sjö aðaleigendur þriggja stærstu útgerðarfyrirtækja landsins samtals 5,9 milljarða í fjármagnstekjur árið 2017.
Athugasemdir