Venjuleg íslensk verkamannafjölskylda getur í dag ekki komist í gegnum lífið án þess að eiga í miklum og reglulegum tengslum við lánastofnanir af einhverju tagi. Afborganir lána vegna húsnæðis, bílakaupa, náms og jafnvel daglegrar neyslu í gegnum kreditkort og smálán eru orðnar stór og fastur liður í bókhaldi nánast allra venjulegra íslenskra heimila.
Á tímum óðaverðbólgu og bankakerfis sem handstýrt var af flokkakerfinu var afar viðráðanlegt að greiða upp bankalán og þau nánast eins og happdrættisvinningur. Í dag er þessu öðruvísi farið. Enginn tekur lán án þess að greiða lántökukostnað, vexti og verðbætur upp í topp. Það eru ekki lengur bara laun og atvinnuöryggi sem eru háð hagsveiflum, greiðsluseðlar frá lánastofnunum og innheimtufyrirtækjum eru það líka. Óstöðugleiki í fjármálakerfinu leiðir þannig beint til búsifja hjá fjölskyldum landsins rétt eins og aflabrestur og olíuverðshækkanir gerðu í gegnum tíðina.
Verkalýðshreyfingin sefur
Samhliða þessari þróun hefur vaxið upp gríðarlegur fjármálaiðnaður sem sogar til sín æ stærri hlut af þjóðarframleiðslu. Laun, bónusar og arðgreiðslur til stjórnenda og eigenda í þessum geira eru í hlutföllum sem ganga langt fram úr því sem áður þekktist í viðskiptalífinu. Rannsóknir hafa sýnt að gríðarlegur vöxtur fjármálakerfisins síðan um 1995, svokölluð fjármálavæðing, er stærsta skýringin á aukinni stéttaskiptingu og ójöfnuði í íslensku samfélagi. Fjármálakerfið, sem haldið er uppi með mánaðarlegum afborgunum íslenskra heimila, hefur skapað hraðbraut ofurlauna og sjálftöku sem farið hefur langt fram úr annarri launaþróun í þjóðfélaginu.
„Rannsóknir hafa sýnt að gríðarlegur vöxtur fjármálakerfisins síðan um 1995, svokölluð fjármálavæðing, er stærsta skýringin á aukinni stéttaskiptingu og ójöfnuði í íslensku samfélagi“
Meðan á öllu þessu hefur gengið hefur forysta ASÍ, sem á að standa í stafni þegar kemur að samfélagslegu réttlæti og velferð íslenskra heimila, sofið værum svefni gagnvart fjármálavæðingu efnahagslífsins og stóraukinni skuldsetningu heimilanna. Hrunið 2008 breytti engu um þetta fálæti. Verður aðgerðaleysi og fjarvera Alþýðusambandsins í þeirri miklu samfélagsumræðu sem þar fór fram lengi í minnum höfð. Kaldhæðnislegt verður að teljast að í nýlegu kynningarefni fer Alþýðusambandið mikinn um kollsteypur á áratugunum eftir seinni heimsstyrjöld, en lætur sem stærsta efnahagslega kollsteypa Íslandssögunnar, hrunið, sé ekki til.
Risastórt hagsmunamál
Það er undarlegt og dapurlegt að æðsta forysta ASÍ hefur ætíð lagst gegn þeim tillögum sem Verkalýðsfélag Akraness hefur sett fram á þingum ASÍ um að taka á okurvöxtum og afnema verðtryggingu. Nú eru hins vegar komnir nýir leiðtogar í verkalýðshreyfingunni, en bæði formenn VR og Eflingar hafa tekið undir mikilvægi þess að tekið sé á öfgum fjármálakerfisins. Það er fráleitt að íslenskir neytendur greiði á bilinu 2 til 4% hærri raunvexti en neytendur í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það má áætla að íslensk heimili séu að greiða um eða yfir 70 milljarða í vaxtakostnað umfram það sem sambærilegur fjöldi heimila á Norðurlöndunum myndi gera. Hér er um risastórt hagsmunamál að ræða fyrir íslensk heimili enda eru þau neydd til að greiða 50 til 100 þúsund krónum meira í vaxtakostnað í hverjum mánuði af 30 milljóna húsnæðisláni en það sem tíðkast í nágrannalöndunum.
Nýtum vald yfir lífeyrissjóðum
Sólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson hafa loksins fært inn í verkalýðshreyfinguna þann kraft og eldmóð sem fylgdi búsáhaldabyltingunni. Þau eru stórkostlegur liðsauki við þann fámenna hóp innan verkalýðshreyfingarinnar sem talað hefur fyrir því að stjórnvöld hætti þessu skefjalausa dekri við fjármálakerfið sem bitnar illilega á alþýðu þessa lands og skuldsettum heimilum.
„Það má áætla að íslensk heimili séu að greiða um eða yfir 70 milljarða í vaxtakostnað umfram það sem sambærilegur fjöldi heimila á Norðurlöndunum myndi gera“
En hver eru verkefni dagsins? Ljóst er að verkalýðshreyfingin er í kjöraðstöðu til að hafa áhrif á fjármálakerfið í gegnum ítök sín í lífeyrissjóðum. Það er tímabært að skoða hvernig nýta megi þau áhrif í þágu hagsmuna almennings og rjúfa þá venju að þeir hagi sér eins og hverjir aðrir fjárfestar með tilheyrandi skeytingarleysi um hag almennings. Þá er ljóst að endurskoða þarf vaxtastefnu Seðlabankans og afnema þarf verðtrygginguna sem hefur stuðlað að ósanngjarnri dreifingu áhættu vegna lántöku auk þess að vera þjóðhagslega afar umdeilanleg. Hverjar sem útfærslurnar verða er ljóst að verkalýðshreyfingin mun héðan í frá hafa fjármálakerfið og umbætur á því á dagskrá, enda lykilatriði fyrir velferð almennings og ábyrga hagstjórn.
Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness
Viðar Þorsteinsson er framkvæmdastjóri Eflingar - stéttarfélags
Athugasemdir