Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mestan stuðning stjórnmálaflokka á landsvísu og Samfylkingin er næst stærst samkvæmt nýrri könnun MMR. Litlar breytingar eru á fylgi flokkanna frá síðustu könnun MMR og allar breytingar eru innan vikmarka utan að fylgi Flokks fólksins eykst marktækt. Helmingur aðspurðra styður ríkisstjórnina.
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur stuðnings 21,6 prósenta aðspurðra og dregst fylgi hans saman um 2,1 prósentustig frá síðustu könnun sem birt var fyrir mánuði síðan. Fylgi flokksins nú er 3,6 prósentustigum lægra en hann fékk upp úr kjörkössunum á síðasta ári.
Fylgi hinna stjórnarflokkanna breytist lítið frá síðustu könnun. Vinstri græn bæta við sig 0,7 prósentustigum milli kannana, mælast nú með 12,7 prósenta fylgi. Það er 4,2 prósentusitgum lægra en í síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn mælist með 9,5 prósenta fylgi, 0,6 prósentustigum lægra en í síðustu könnun. Fylgi flokksins hefur sigið um 1,2 prósentustig frá síðustu kosningum. Stjórnarflokkarnir þrír hafa því samanlagt tapað 9 prósentustigum frá kosningum ef mark er takandi á umræddri könnun. Samanlagt mælast flokkarnir þrír nú með 43,8 prósenta stuðning.
Samfylkingin mælist með mest fylgi stjórnarandstöðuflokkanna, 15,1 prósent. Það er hálfu prósentustigi meira en í síðustu könnun og þremur prósetustigum meira en flokkurinn hlaut í kosningunum. Píratar fylgja fast á hæla þeirra, mælast nú með 14,3 prósenta stuðning sem er 0,2 prósentustigum meira en í síðustu könnun. Flokkurinn hefur hins vegar bætt verulega við sig frá síðustu kosningum, þar sem Píratar fengu 9,2 prósent atkvæða. Miðflokkurinn heldur svo sjó, breytingar á fylgi flokksins eru litlar. Flokkurinn mælist nú með 10,6 prósenta stuðning en naut stuðnings 9,8 prósenta aðspurðra í síðustu könnun. Flokkurinn hlaut 10,9 prósent fylgi í kosningunum.
Flokkur fólksins bætir við sig frá síðustu könnun en 8,2 aðspurðra styðja hann nú. Í síðustu könnun sögðust 5,6 prósent aðspurðra styðja flokkinn og er um marktæka breytingu að ræða. Flokkurinn hlaut 6,9 prósent atkvæða í kosningunum og er fylgisaukningin nú innan vikmarka miðað við þau úrslit. Viðreisn missir fylgi og mælist með 5,8 prósenta stuðning en hafði 7,1 prósenta stuðning síðast. Flokkurinn hlaut 6,7 prósent atkvæða í kosningunum. Aðrir flokkar mælast samanlagt með 2,2 prósenta fylgi.
Stuðningur við ríkisstjórnina er óbreyttur milli kannana, 50,1 prósent segjast styðja hana en voru 49,8 prósent síðast. Könnunin var framkvæmd dagana 12.-18. júní. 925 manns svöruðu spurningum MMR og gáfu 85,8 prósent upp afstöðu sína til stjórnmálaflokka. Óákveðnir voru 4,1 prósent, 4,5 prósent sögðust myndu skila auðu, 2,3 prósent sögðust ekki myndu kjósa og 3,3 prósent vildu ekki gefa upp afstöðu sína.
Athugasemdir