Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

„Við viljum frekar hafa þig lifandi en dauðan“

Flosi Þor­geirs­son, gít­ar­leik­ari HAM, skamm­að­ist sín fyr­ir að þurfa að kalla eft­ir að­stoð björg­un­ar­sveita þeg­ar hann villt­ist á Hengils­svæð­inu. Hann seg­ir eitr­aða karl­mennsku hafa rek­ið sig áfram

„Við viljum frekar hafa þig lifandi en dauðan“
Eitruð karlmennska Flosi segir að einhver sigurvegarahugsunarháttur og eitruð karlmennska hafi gripið hann og næstum orðið til þess að illa fór, þegar hann ákvað að fara í gönguferð um Hengilssvæðið. Mynd: Facebook / Flosi Þorgeirsson

Flosi Þorgeirsson, gítarleikari HAM og leiðsögumaður, neyddist til að kalla eftir aðstoð björgunarsveitar 16. júní síðastliðinn eftir að hafa farið offari í gönguferð á Hengilsvæðinu. Flosi lýsir því í færslu á Facebook-síðu sinni að eitruð karlmennska hafi rekið hann áfram í aðstæðum þar sem hann hefði átt að hlusta á líkamann og snúa við. Þá hafi hann skammast sín fyrir að hringja eftir aðstoð og taka þannig tíma björgunarsveitafólks. Björgunarsveitarfólk hafi þó beðið hann um að hafa ekki áhyggjur. „Við viljum frekar hafa þig lifandi en dauðan“, hafi einn þeirra sagt við hann.

Flosi greinir frá því að hann hafi verið allur uppveðraður eftir jafntefli Íslands og Argentínu í HM í knattspyrnu. Hann hafi því ákveðið að skella sér í gönguferð út fyrir bæjarmörkin og Hengilssvæðið hafi orðið fyrir valinu. „Ég var ágætlega klæddur, með vatnsflösku en áttavitann fann ég hvergi, hef sama sem ekkert notað hann og taldi mig ekki þurfa þess. Þar eð þetta átti bara að vera stutt ganga þá skildi ég vatnsflöskuna eftir í bílnum. Þrátt fyrir að vera miðaldra þá er ég í góðu formi en ég er sjaldan þvermóðskufullur í svona göngum. Um daginn sneri ég við í miðjum hlíðum Keilis vegna þess að ég fann að ég var ekki nógu vel klæddur. Mér fannst ekkert til um það, hugsaði að ég gæti farið á toppinn seinna. Í þessarri Hengilsgöngu greip mig aftur á móti einhver eitruð karlmennska og sigurvegarahugsunarháttur sem átti eftir að reynast dýrkeyptur.“

Nístandi sársauki í mjöðm

Flosi lýsir því síðan að hann hafi gengið inn í Innstadal og ákveðið að ganga á sjálfan Hengilinn. Hann hafi tekið margar myndir og myndbönd til að birta á samfélagsmiðlum. „Ég sá fyrir mér öll vingjarnlegu froðukommentin og hjörtun sem myndu baða samfélagsmiðla mína björtu ljósi.“

Á leið upp á Hengilinn fór Flosi að finna fyrir vægum verk í vinstri mjöðminni en hafi ákveðið að leiða það hjá sér. Verkurinn hafi hins vegar bara aukist en þrátt fyrir það komst Flosi alla leið upp. Þegar Flosi lagði af stað niður var skollin á svarta þoka og loks þegar birti upp hafi hann áttað sig á að hann væri að fara ranga leið því Þingvallavatn hafi blasað við honum. Flosa hafi því verið ljóst að gangan yrði lengri en til stóð en hann hafi ekki látið það á sig fá.  

„Í þessarri Hengilsgöngu greip mig aftur á móti einhver eitruð karlmennska og sigurvegarahugsunarháttur sem átti eftir að reynast dýrkeyptur“

„Mjaðmarverkurinn var nú farinn að pirra mig verulega og fann ég meira og meira fyrir honum. Skyndilega var eins og brennandi heitum teini væri stungið beint í gegnum lærið og inn í mjöðm. Ég öskraði af kvölum og féll við, sem betur fer tók mosabreiða á móti mér. Ég reyndi að standa upp en vinstri fóturinn lét ekki að stjórn, í hvert skipti sem ég teygði úr honum eða kreppti, þá fann ég alveg nístandi sársauka. Ég dragnaðist loks niður á jafnsléttu. Ég vissi nokkurn veginn hvar ég var, SA við Hengil og sá hvar sólin var að setjast. Ég beygði því í vestur og vonaðist til að komast aftur inn í Innstadal. Þar þurfti ég að klifra nokkra hóla en það reyndist gersamlega ómögulegt. Ég gat ekkert notað vinstri fótinn nema rétt til að dragnast áfram. Þar eð það var óbærilegt að teygja úr fætinum gekk ég álútur og auk verksins í mjöðminni fór ég að finna til í mjóbakinu og mér fannst sem þindin væri á köflum að rifna í sundur. Sem betur fer var veðrið frábært en sólin sest og orðið nokkuð skuggsýnt. Ég saknaði nú vatnsflöskunnar og svalaði þorstanum í lækjum en nóg var af þeim. Allt í kringum um mig voru hlíðar og hólar sem rauk úr enda háhitasvæði. Þetta var stórfenglegt umhverfi en nokkuð drungalegt og ekki bætti mitt líkamlega ástand úr.“

Hringdi eftir aðstoð

Flosi hafi á þessum tíma ákveðið að þetta gengi ekki, hann yrði að hringja á Neyðarlínuna. Það gekk nokkuð brösuglega fyrst að ná sambandi og auk þess vakti það áhyggjur að heldur var farið að draga af rafhlöðu símans. Loks náði Flosi þó sambandi og ákveðið var að hann biði eftir björgunarsveitarfólki. „Eftir um hálftíma fékk ég skilaboð frá hjálparsveitinni um að þeir væru búnir að miða mig út og væru á leiðinni. Nú tók við löng bið, ca. 90-120 mín en um síðir komu tveir strákar á fjórhjólum og lagt var af stað tilbaka. Ferðin gekk frekar hægt og sprakk einu sinni á öðru hjólinu og einu sinni festist hitt svo varð að draga það upp. Ég skammaðist mín er ég sá spjöllin sem hjólin unnu á mosanum, allt vegna ofkapps í mér. Það tók ca. 2 tíma að komast tilbaka. Ég hafði huggað mig við að þetta feigðarflan hafði aðeins tekið tíma tveggja hjálparsveitamanna en brátt sá ég að svo var ekki. Við veginn biðu 6 manns og tveir bílar! Seinna fékk ég að vita að jafnvel fleiri hefðu verið kallaðir út. Hvílík skömm. Ég var keyrður að bílnum mínum og gat keyrt heim, það var í raun miklu erfiðara að komast upp tröppurnar og upp í rúm en að keyra bílinn.“

Ætlar að kaupa flugelda af hjálparsveitinni

Flosi segist hafa gert ýmis mistök í þetta skipti. Fari fólk eitt í fjallgöngu eigi það að búast við hinu versta og því hafa með sér áttavita, vatn, kort, aukafatnað og svo framvegis. Þá eigi að segja einhverjum frá ferðum sínum og senda skilaboð á 112 appinu svo hægt sé að hefja leit, ef á þarf að halda, út frá þeim punkti. Enginn hafi vitað af ferðum hans og það sem hafi átt að verða 90 mínútna ganga hafi orðið að 12 tíma feigðarflani.

Mér finnst svo magnað að hér á Íslandi er til fólk sem er til í að henda öllu frá sér á laugardagskvöldi og fara að leita að miðaldra flóni sem heldur að hann sé mestur og bestur“

„Ég skammast mín þó aðeins minna. Stuttu eftir að fólkið frá Hveragerði hafði sótt mig voru þau kölluð út (ásamt þremur öðrum sveitum!) til að ná í erlendan ferðamann á Ingólfsfjalli sem var bara orðinn svo þreyttur að hann komst ekki lengra. Björgunarsveitarmennirnir báðu mig að hafa ekki áhyggjur af þessu. „Við viljum frekar hafa þig lifandi en dauðan“, sagði einn þeirra og klappaði mér á öxlina. Þetta er stórkostlegt fólk.

Ég hef ákveðið að læra af þessu. Fara varlega næst og skilja eitruðu karlmennskuna eftir heima. Læknirinn sagði vöðvann í kringum liðamótin illa bólginn og ég er í raun ekki enn orðinn góður, hef nú verið á bólgueyðandi og verkjalyfjum í viku. Mér finnst svo magnað að hér á Íslandi er til fólk sem er til í að henda öllu frá sér á laugardagskvöldi og fara að leita að miðaldra flóni sem heldur að hann sé mestur og bestur. Það er ekkert sjálfsagt mál að eiga hjálparsveitirnar að. Við gleymum því kannski stundum. Ég hef ekki keypt flugelda í áraraðir og hef lítinn áhuga á slíku. Í desember ætla ég þó að gera mér ferð austur í Hveragerði og kaupa dágóðan slatta af hjálparsveitinni þar.“

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Júlía Margrét Alexandersdóttir
1
Það sem ég hef lært

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Ekki hlusta á allt sem heil­inn seg­ir þér

Júlía Mar­grét Al­ex­and­ers­dótt­ir hef­ur lif­að með geð­hvörf­um í 15 ár. Hún hef­ur kljáðst við dekksta lit þung­lynd­is og fund­ið fyr­ir und­ur­vellíð­an í man­íu. Í ferl­inu hef­ur Júlía lært að stund­um á hvorki hjart­að né heil­inn at­kvæð­is­rétt. „Stund­um eru það annarra manna heil­ar og annarra manna hjörtu sem vita best.“

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Júlía Margrét Alexandersdóttir
4
Það sem ég hef lært

Júlía Margrét Alexandersdóttir

Ekki hlusta á allt sem heil­inn seg­ir þér

Júlía Mar­grét Al­ex­and­ers­dótt­ir hef­ur lif­að með geð­hvörf­um í 15 ár. Hún hef­ur kljáðst við dekksta lit þung­lynd­is og fund­ið fyr­ir und­ur­vellíð­an í man­íu. Í ferl­inu hef­ur Júlía lært að stund­um á hvorki hjart­að né heil­inn at­kvæð­is­rétt. „Stund­um eru það annarra manna heil­ar og annarra manna hjörtu sem vita best.“

Mest lesið í mánuðinum

Sælukot hagnast um tugi milljóna en starfsfólk og foreldrar lýsa skorti
4
Rannsókn

Sælu­kot hagn­ast um tugi millj­óna en starfs­fólk og for­eldr­ar lýsa skorti

Einka­rekni leik­skól­inn Sælu­kot, sem hef­ur feng­ið millj­arð króna í op­in­ber fram­lög síð­asta ára­tug, hef­ur hagn­ast vel og nýtt pen­ing­ana til að kaupa fast­eign­ir fyr­ir stjórn­ar­for­mann­inn. Stjórn­end­ur leik­skól­ans segja mark­mið­ið vera að ávaxta rekstr­araf­gang, en fyrr­ver­andi starfs­menn og for­eldr­ar nem­enda kvarta und­an langvar­andi skorti. Skól­an­um var ný­lega lok­að tíma­bund­ið vegna óþrifn­að­ar og mein­dýra.
Hollt mataræði lykilatriði að góðri heilsu
6
Fréttir

Hollt mataræði lyk­il­at­riði að góðri heilsu

Ax­el F. Sig­urðs­son, sér­fræð­ing­ur í hjarta­lækn­ing­um, hef­ur skoð­að tengsl fæðu og lífs­stíls við sjúk­dóma, einkum hjarta- og æða­sjúk­dóma. Tal­að hef­ur ver­ið um að lífs­stíls­sjúk­dóm­ar séu stærsta ógn­in við heilsu fólks og heil­brigðis­kerfi til næstu ára­tuga. Ax­el seg­ir að fólk geti breytt miklu með hollu mataræði og hreyf­ingu. Fé­lags­leg tengsl séu líka mik­il­væg. Hann ráð­legg­ur hreina fæðu til að sporna við kvill­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár