Maður sem vann á Stuðlum í nokkrar vikur hafði samband við unglingsstúlku skömmu eftir að hún útskrifaðist af meðferðarheimilinu og reyndi að fá hana til að stunda kynlíf gegn greiðslu. Málið var tilkynnt til lögreglu.
Þegar maðurinn hafði samband við stúlkuna hafði hann þegar verið sendur í leyfi og honum tilkynnt að hann fengi ekki fastráðningu á Stuðlum eftir að hafa unnið þar á reynslutíma. Ástæðan var sú að lögreglumaður hafði tekið eftir honum á staðnum og greint vinnuveitanda frá því að lögreglan hefði oftar en einu sinni haft afskipti af manninum sem þó var með óflekkað sakavottorð. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var umsvifalaust gripið til ráðstafana; maðurinn sendur í leyfi og hefur ekki komið inn á Stuðla síðan.
Fyrir nokkrum vikum kom þó í ljós að maðurinn hafði síðar haft samband við barn sem hafði verið vistað á heimilinu meðan hann vann þar. Mun hann hafa spurt barnið, unglingsstúlku, hvort hún gæti hugsað sér að veita kynlífsþjónustu. Er nú til skoðunar hvort hann hafi átt samskipti við fleiri börn í sama tilgangi.
Stuðlar er meðferðarstöð á vegum Barnaverndarstofu fyrir börn sem jafnan eru í gríðarlega viðkvæmri stöðu, svo sem vegna fíknivanda, ofbeldis, afbrotahegðunar eða erfiðra heimilisaðstæðna. Stundin hafði samband við Funa Sigurðsson, forstöðumann Stuðla, sem gat ekki tjáð sig um málið og vísaði til trúnaðarskyldu sinnar.
Athugasemdir