Daginn sem Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna, þann 20. janúar 2017, minnkaði hinn siðmenntaði heimur til muna, það höfum við fengið staðfest hvað eftir annað síðan. Að maður sem margsinnis hafði sýnt fram á það í ræðu, riti og með gjörðum, að verðmætamat hans samræmdist ekki þeim lýðræðislegu hugmyndum sem við byggjum samfélag okkar á, skyldi komast til æðstu valda í voldugasta vestræna þjóðríki heims olli réttmætum áhyggjum.
Ekki nema viku eftir að Trump var settur í embætti, eða þann 27. janúar 2017, undirritaði hann tilskipun sem meinaði ríkisborgurum sjö ríkja inngöngu í Bandaríkin. Tilskipunin náði til ríkisborgara frá Íran, Írak, Jemen, Líbíu, Sómalíu, Súdan og Sýrlands, sem telja u.þ.b. 134 milljónir einstaklinga. Í kjölfarið voru 100 þúsund veittar vegabréfsáritanir afturkallaðar, flóttafólki frá þessum löndum var meinað að sækja um hæli og handhöfum græna kortsins, sem jafnvel voru búsettir og starfandi í Bandaríkjunum var meinuð endurinnganga í landið. Yfirskin aðgerðarinnar var að koma í veg fyrir hryðjuverk en undirtónn hennar var í hæsta máta fordómafullur og framkvæmd hennar mannréttindabrot.
Börn geymd í búrum
Nýjasta grimmdarverk ríkisstjórnar Trump, sem ljósi hefur verið varpað á, er hluti af óþolsstefnu hennar (zero-tolerance policy) gagnvart ólöglegum innflytjendum og flóttafólki. Þann 7. maí 2018 gaf Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, út yfirlýsingu þess efnis að fullorðnir einstaklingar yrðu lögsóttir fyrir að koma ólöglega inn í landið og að börn yrðu aðskilin frá þeim væru þau með í för. Þetta grimmdarverk felur sem sagt í sér að börn eru skilin frá foreldrum sínum við komuna til Bandaríkjanna og geymd í búrum á meðan foreldrar þeirra bíða réttarhalda í fangelsum. Við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó eru í þessum orðum rituðum u.þ.b. 2.000 börn, sem skilin hafa verið frá fjölskyldum sínum á þennan hátt og læst inni í búrum. Börnin, sem mörg hver eru mjög ung, eiga það á hættu að vera læst inni í þessum búrum svo mánuðum skiptir, gangi ekki greiðlega að hafa uppi á aðstandendum sem geta tekið þau að sér. Það er að segja aðstandendum sem ekki eru læstir inni í bandarískum fangelsum, því bandarísk stjórnvöld hafa jú greinargóðar upplýsingar um hvar nánustu ættingja þessara barna er að finna. Að réttarhöldum foreldranna loknum er hugmyndin að börnin sameinist þeim á ný en svo virðist sem ekkert skýrt kerfi sé til staðar til að tryggja þá endurfundi eða velferð barnanna meðan á aðskilnaðinum stendur. Þess eru dæmi að foreldrar hafi verið sendir úr landi að loknum réttarhöldum án barna sinna og hafi ekki tekist að hafa uppi á þeim eftir það. Líkurnar á því að þær aðstæður sem börnin búa við og það ofbeldi sem aðskilnaðurinn felur í sér valdi varanlegum sálrænum skaða eru yfirgnæfandi. Fyrir utan þessi 2.000 börn sem skilin hafa verið frá foreldrum sínum með valdi er talið að um 10.000 börn til viðbótar séu lokuð inni eftir að hafa reynt að komast ein síns liðs inn í landið eða í fylgd smyglara.
Mannréttindavakning í kjölfar síðari heimsstyrjaldar
Í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar hörmungar helfararinnar urðu fólki ljósar, var mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna ritaður, og staðfestur í desember árið 1948. Alþjóðasamfélagið taldi nauðsynlegt að draga skýrar línur um réttindi einstaklinga til að koma í veg fyrir að það sem gerst hafði, eða nokkuð í líkingu við það, gæti endurtekið sig. Árið 1951 var flóttamannasáttmálinn samþykktur og 1989 barnasáttmálinn. Þessir þrír sáttmálar eiga að endurspegla grundvallargildi aðildarríkja og réttindi einstaklinga til lífs, frelsis, öryggis og sanngjarnrar málsmeðferðar svo eitthvað sé nefnt. Á tæplega þrjátíu árum eru Bandaríkin eina aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem ekki hefur fullgilt barnasáttmálann.
Í stjórnartíð Trumps hafa allir þrír sáttmálarnir verið virtir að vettugi á einn eða annan hátt og við fleiri en eitt tækifæri. Það þýðir að í stjórnartíð Trumps hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna brotið gróflega gegn grundvallargildum og hugmyndum um siðferðilegan rétt einstaklinga til meðal annars lífs, frelsis, öryggis og sanngjarnrar málsmeðferðar. Það að sáttmálarnir séu í sjálfu sér ekki lagalega bindandi nema þeir hafi verið lögfestir innan ríkis er í þessu siðferðilega samhengi aukaatriði. Það sem er áhugavert að skoða hér er hvernig gildismat Trumps og ríkisstjórnar hans, áætlanir og framkvæmdir virðast stangast á við algjörar grundvallarhugmyndir um mannréttindi einstaklinga og hópa. Hvort sem um er að ræða börn, innflytjendur, flóttafólk eða aðra hópa. Og þegar gildismat valdamikilla einstaklinga og stofnana stangast á við grundvallarhugmyndir um mannréttindi er enginn óhultur.
Stefna Bandaríkjastjórnar samræmist ekki mannréttindum
Úrsögn Bandaríkjanna úr mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þann 19. júní 2018 kemur því lítið á óvart í ljósi þeirrar þróunnar sem hefur átt sér stað á undanförnu tæpu einu og hálfu ári. Yfirskin hennar virðist vera almenn óánægja með ráðið og eitthvert óljóst form af stuðningi við Ísraelsríki. En hin raunverulega ástæða hlýtur að teljast sú að hugmyndafræði Bandaríkjastjórnar samræmist ekki lengur þeirri stefnu mannréttindaráðs að standa vörð um mannréttindi. Enda þykir grunsamlegt að tilkynnt skuli um úrsögnina aðeins degi eftir að mannréttindaráð gagnrýnir Bandaríkjastjórn harðlega fyrir aðgerðirnar við landamæri Mexíkó.
Lítið og illa ígrundaðar ákvarðanir hafa einkennt vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar Bandaríkjanna frá fyrsta degi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar undanfarið tæpt eitt og hálft ár hafa varpað ljósi á gríðarlega lítilsvirðingu gangvart mannréttindum ákveðinna hópa og virðingu þeirra. Þessar aðgerðir byggjast á fordómum, hroka og hatri, sem sést glögglega á því hve ómannúðlegar þær eru. Það sem erfiðast er að sætta sig við í þessu samhengi er þó ekki að Trump og ríkisstjórn hans beri litla sem enga virðingu fyrir mannréttindum, heldur það hve auðvelt þeim virðist reynast að fá þessar ómannúðlegu aðgerðir framkvæmdar með atbeina venjulegs fólks í landinu.
Tilraun Milgrams
Tilraun Milgrams frá árinu 1963 leiðir í ljós óhugnanlegar staðreyndir um þær hættur sem stafað geta af sambandi fólks við yfirvald. Niðurstöður hennar sýndu að stór hluti venjulegs fólks myndi pynta, skaða og jafnvel drepa saklausa einstaklinga að fenginni skipun frá viðeigandi yfirvaldi. Um einfaldar skipanir var að ræða og hvorki notast við hótanir né umbun af neinu tagi til að hvetja fólk áfram. Í ljós kom að sú persónulega ábyrgð sem flestir einstaklingar finna fyrir undir öðrum kringumstæðum vék fyrir ábyrgð yfirvaldsins og dómgreind þess. Einstaklingurinn samþykkti yfirvaldið og upplifði sig fremur sem verkfæri í aðstæðunum en geranda.
Milgram hannaði tilraunina eftir réttarhöldin yfir SS-foringjanum Adolf Eichmann, með það að markmiði að svara spurningunni hvort það væri fræðilega mögulegt að Eichmann og hinir ótal samverkamenn hans í síðari heimsstyrjöldinni hefðu bara verið að hlýða skipunum þegar þeir skipulögðu og framkvæmdu morðin á u.þ.b. 6 milljónum gyðinga.
Tilraunin gekk út á að þátttakendur töldu sig vera að gefa öðrum þátttakanda rafstuð, en sá síðarnefndi var í raun og veru leikari. Spenna hins meinta rafstuðs var merkt frá 15 voltum upp í 450 volt og þátttakendum gert að hækka hana stig af stigi. 65 prósent þátttakenda í tilrauninni fóru upp í full 450 volt, fullvissir þess að þeir hefðu valdið dauða annarrar manneskju. 100 prósent þátttakenda fóru upp í 300 volt eða hærri styrk þrátt fyrir að heyra leikarann, sem þeir töldu vera annan þátttakanda, sárbæna þá um að hætta, öskra og kvarta undan miklum óþægindum frá hjarta.
Ábyrgð einstaklingsins að standa vörð um eigið siðferði
Sú tilhneiging fólks að firra sig persónulegri ábyrgð og framfylgja skipunum þó þær stangist kröftuglega á við bæði þeirra eigið siðferði og hið samfélagslega norm (og sumum tilvikum landslög) er í hæsta máta áhyggjuefni. Við munum aldrei geta komið í veg fyrir að hættulegir einstaklingar komist til valda af og til, en einmitt þess vegna er nauðsynlegt að við séum viðbúin þegar það gerist og að við beitum okkur fyrir því að búa komandi kynslóðir undir að bregðast við þeim aðstæðum. Alþjóðasamfélagið gerði á sínum tíma ítarlegar ráðstafanir í tilraun til þess að tryggja öryggi framtíða kynslóða í samskiptum við valdhafa á borð við Hitler og þá hugmyndafræði sem nasisminn byggðist á. En mikilvægi þess að gleyma ekki uppgangi nasismans og afleiðingum hans kristallast að einhverju leyti í því hvernig ríkisstjórn Trumps beitir valdi og fær því framfylgt. Með atbeina venjulegs fólks sem yfirgefur gildismat sitt tímabundið, eða leggur það til hliðar, til þess að hlýða yfirvaldi og framfylgja skipunum.
Það sem læra má af þessu er hve mikilvægt það er að beita gagnrýnni hugsun í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur og að staldra reglulega við til að velta því fyrir okkur hvort við séum að breyta rétt. Mikilvægi þess að þjálfa börn í gagnrýnni hugsun, ekki síst gagnvart yfirvaldi, er ekki hægt að undirstrika um of. Ekki frekar en mikilvægi þess að kenna börnum okkar samkennd. Við þurfum hreinlega að búa komandi kynslóðir undir að vera á varðbergi gagnvart hugmyndafræði og tilskipunum að ofan sem stangast á við grundvallarhugmyndir um mannréttindi og við þurfum að halda umræðunni um þessi mál vakandi svo þau falli ekki í gleymsku og við verðum andvaralaus.
Skýr skyldleiki við hugarfar helfararinnar
Sannleikurinn er að sá harmleikur sem á sér stað við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó akkúrat núna hvílir ekki eingöngu á herðum Trumps og ríkisstjórnar hans, ekki frekar en við getum látið eins og helförin hvíli eingöngu á herðum Hitlers. Þó þáttur yfirvaldsins og ábyrgð sé auðvitað langstærst þá hvílir þessi harmleikur að einhverju leyti á herðum hvers og eins sem tekur þátt í að framkvæma hann. Ekkert starfsheiti og engin tilskipun frá yfirvöldum á að geta firrt okkur þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera manneskja, eða réttlætt brot einstaklings gagnvart grundvallarmannréttindum og virðingu annarrar manneskju. Þegar upp er staðið ber okkur öllum skylda til að standa vörð um þau mannréttindi sem okkur, sem fædd erum eftir að reynt var fyrir alvöru að hefja mannréttindi til virðingar, voru gefin í vöggugjöf. Meðal annars með því að standa vörð um eigið siðferði, mótmæla og neita að taka þátt í eða hlýða tilskipunum sem stangast kröftulega á við það.
Við megum aldrei gleyma því að Hitler hefði ekki getað hrint helförinni í framkvæmd einn síns liðs og að harmleikir á borð við helförina velta alltaf á því að venjulegt fólk fáist til þess að taka þátt í framkvæmd þeirra með einum eða öðrum hætti. Og við megum ekki leyfa okkur að horfa framhjá þeim hættuteiknum sem á lofti eru í heiminum í dag. Það er venjulegt fólk sem hefur, með valdi, aðskilið börn frá foreldrum sínum og læst þau inni í búrum við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó og það er venjulegt fólk sem rífur grátandi börn hælisleitenda út af heimilum sínum um miðjar nætur á Íslandi til að vísa þeim úr landi. Þrátt fyrir að Ísland hafi bæði fullgilt og lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Athugasemdir