Okkur er farið að hrylla við fyrir fyrirbærinu Trump, gullklósettinu í Trump Tower og óhamingjusömu gullkonunni hans.
Þér hryllir við hugmyndum hans um lífið, mannfyrirlitningunni, ódýrum frösunum. Mér hryllir við innantómri, gullhúðaðri illskunni. Okkur langar til að slökkva þegar hann birtist í sjónvarpinu og lækka þegar hann heyrist í útvarpinu. Myndir í blöðum af þessum sjálfhverfa skinnpoka fullum af plasti, fordómum, rotvarnarefnum, kvikasilfri og illsku, fylla okkur depurð. Það er varla hægt að komast nógu hratt með blöðin út í tunnu.
Við erum ekki ein. Heimurinn er bráðum búinn að fá alveg nóg af Trump.
Það er þó eitt sem er andstyggilegra en Trump.
Hirðin í kringum Trump
Vel snyrt, greitt fólk, sem hefur gengið í bestu háskóla í heimi. Fötin þeirra eru dýr, það hefur aldrei liðið skort. Það er vel hugsað um börnin þeirra, þar leika barnfóstrur, jafnvel frá Suður-Ameríku eða Mið-Ameríku stórt hlutverk. Það á stór hús, feitar bankainnstæður, það siglir hraðbyri upp metorðastigann í embættismannakerfinu eða í stjórnmálum.
Og það klappar fyrir mönnum eins og Trump.
Það skrifar undir stefnu hans, geðveikislegar hugmyndir hans og prentar þær á vandaðan pappír með vatnsmerki Hvíta hússins og skrifar undir þær með blekpenna. Það afmyndast í framan af reiði og gremju ef fólk vogar sér að gagnrýna það sem frá honum kemur.
Var það sjúkleg illska af hálfu þessa fólks að nota menntun sína, peninga og forréttindi til að réttlæta að vopnaðir lögreglumenn slitu fátæk börn úr fangi mæðra sinna á landamærum fátæktar og ríkidæmis og lokuðu þau grátandi á bak við rimla?
Var kynþáttastefna nasista kennd á bak við tjöldin í Georgetown eða Harvard? Eða er græðgin eftir meira fé, meiri áhrifum, metorðum svo miklu sterkara afl í brjósti þessa fólks en mannúðin? Já, auðvitað, spurningin er í sjálfu sér barnaleg. Þetta er fólk sem myndi klappa upp alla einræðisherra, alla stríðsherra, ef það fengi bara að vera sjálft í vinningsliðinu. Þetta er fólkið sem gerir það að verkum að menn eins og Trump geta verið forsetar Bandaríkjanna, undir fánahyllingu nýnasista, lófataki byssubrjálæðinganna í NRA, gleðihrópum ofsatrúarmanna, í kossaflangsi við alla mestu umhverfissóða og mengunarpáfa í gervöllum Bandaríkjunum.
Uppátæki foringjans
Hollywood færir okkur reglulega kvikmyndir um sorglega og hræðilega atburði, þrælahaldara sem aðskilja mæður frá börnum sínum, ræningja sem ræna litlum börnum þar sem þau sofa í rúmum sínum. Við höfum lifað okkur inn í þjáningar gyðinga og barna þeirra í Þýskalandi nasismans. Núna síðast var sögusviðið í bakgarðinum í Ameríku af því forsetinn heimtaði það.
Fyrir framan Hvíta húsið stendur Trumpfjölskyldan og veifar til okkar og brosir með postulínstönnunum sínum. Það er verið að spila þjóðsönginn. Fyrir aftan húsið er verið að pynta lítil börn.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar klæða sig úr manneskjunni þegar þeir fara í vinnuna, kyssa börnin sín bless og skiptast á nokkrum orðum við barnfóstruna sem á að skutla börnunum milli einkaskóla og íþróttaklúbba þann daginn. Síðan hefst vinnudagurinn og þeir taka til við að réttlæta uppátæki foringjans.
Þegar upptökur láku út af barnsgráti og ömurlegum aðstæðum barnanna sem voru slitin úr fangi mæðra sinna á landamærunum, kom starfsfólk Trumps í fjölmiðla í vel sniðnum og vönduðum klæðnaði, greitt og snyrt, horfði einbeitt í myndavélarnar og sagði að börnin hefðu það gott, á upptökunum væru bara leikarar að þykjast vera börn.
Taflinu er ekki lokið
Það urðu 2.500 börn fórnarlömb þessara níðingsverka Trumps og fylgismanna hans áður en hann lét deigan síga og frestaði aðskilnaðarstefnu sinni í bili. Þau eru vistuð á sjötíu einkareknum stofnunum, flestum í eigu trúfélaga, sum hafa tekið yfir tóm vöruhús til að hýsa börnin, margar þeirra hafa á sér vont orð vegna ofbeldis, vanrækslu og kynferðismisnotkunar. Því hefur ekki verið svarað, hvað verður um þessi börn, hvort þau fá nokkurn tímann að hitta foreldra sína aftur.
„Trump er í sjálfu sér ekki vandinn.“
Börnin munu búa við áfallið alla ævi, hvað sem um þau verður. Það mun grafa um sig í sálinni og lita alla þeirra tilveru og öll þeirra samskipti við annað fólk. Gráturinn sem við heyrum af þessum upptökum var grátur barna sem hafa verið rænd sakleysinu, það var grátur barna sem jafnvel eiga aldrei framar eftir að treysta neinum.
Þau voru peð sem var fórnað í pólitísku tafli brjálæðings, og taflinu er hvergi nærri lokið.
En Trump er í sjálfu sér ekki vandinn.
Þegar hann fer úr Hvíta húsinu tekur nýtt klapplið við nýjum manni, það mun bera hann á höndum sér og smjaðra fyrir honum. Það verður ekki spurt hvort hann sé brjálæðingur eða mannkynsfrelsari heldur hversu voldugt bakland hann hafi.
Sumt þarf ekki að ræða
Um alla Evrópu bugta menn sig og beygja fyrir fasistum í nafni lýðræðis og bjóða jafnvel upp á kurteisislegar samræður um hugmyndir þeirra þótt þær gangi út á að ræna aðra mannhelginni og virðingunni. Þeir eru kosnir til forystustarfa í þjóðþingum og í alþjóðastofnunum þar sem annað sé ekki hægt. Þeir tala mjúkum rómi um hagsmunamál almennings svo sem fleiri hjúkrunarheimili fyrir aldraða og hærri barnabætur og svo hækka þeir róminn og skipa fyrir um ofsóknir, fangelsun og brottvísun fátækasta og umkomulausasta fólksins. Að öðrum kosti sé ekki hægt að skipta gæðunum jafnar. Þeir hafa tekið sér dagskrárvald í umræðunni og óvandaðir stjórnmálamenn til hægri og vinstri hafa reynt að apa eftir þeim til að glata ekki atkvæðum.
Það virðist vera sem helstu leiðtogar heims séu loksins farnir að tala tæpitungulaust um Trump. Er eitthvað að gerast? Kannski erum við að átta okkur – vonandi er það ekki of seint. Menn eins og Trump verðskulda Zero tolerance.
Athugasemdir