Hvorki fulltrúar launþega né bótaþega eiga fulltrúa í nefndum sem Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað vegna heildarendurskoðunar tekjuskatts- og bótakerfa einstaklinga og fjölskyldna.
Ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt, meðal annars í yfirlýsingu vegna kjarasamninga og í greinargerð fjármálaáætlunar, að vinnan við endurskoðun tekjuskattskerfisins muni fara fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins og í samstarfi við launaþegahreyfinguna.
Á fimmtudaginn birtist tilkynning á vef fjármálaráðuneytisins þar sem fram kom að tveir hópar hefðu verið skipaðir vegna þessarar endurskoðunar. Annars vegar er um að ræða stýrinefnd þriggja pólitískra aðstoðarmanna ráðherra undir forystu Páls Ásgeirs Guðmundssonar, aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar. Hins vegar var skipaður sérfræðingahópur þar sem Axel Hall, hagfræðingur og varaformaður fjármálaráðs, gegnir formennsku. Í hópnum sitja jafnframt skrifstofustjórar úr ráðuneytum og sviðsstjóri hjá ríkisskattstjóra. Fram kemur í tilkynningunni að stýrinefnd aðstoðarmannanna muni hafa „reglulegt samráð við samtök launþega og aðra þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta við tillögugerðina“.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segist hafa reiknað með því, í ljósi yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar, að samtökum launafólks yrði boðið sæti við borðið. Sá háttur hafi til dæmis verið hafður á í lok áttunda og níunda áratugarins þegar boðað var til samráðs um skattkerfisbreytingar samhliða kjarasamningsgerð.
„Það að eiga aðild að nefndum eins og þessum felur auðvitað í sér meiri ábyrgð, en þá er líka möguleiki til meiri áhrifa. Og eftir því sem þau áhrif verða meiri og fingraför hagsmuna launafólks, sérstaklega þeirra tekjulægstu, sýnilegri, þá getur slíkt vel liðkað til við gerð kjarasamninga. Ef stjórnmálamenn vilja slíkt, þá verða þeir að finna leið til þess og þetta er ekki slík leið,“ segir Gylfi og játar að það hafi komið sér á óvart þegar forsætisráðherra gerði honum grein fyrir skipun nefndanna.
„Ef stjórnmálamenn vilja koma að lausn kjaramála þá verður launafólk að sjá fram á breytingar er snerta þau verðmæti og kjör sem Alþingi ákveður. Til að slíkt geti virkað, til að launafólk sé tilbúið að bakka með hluta sinnar kröfugerðar og semja á öðrum nótum en upphaflega var lagt upp með, þá þurfa stjórnmálamenn að vera tilbúnir að gera eitthvað af því sem verkalýðshreyfingin telur skipta máli.“
Gylfi telur að kjararáðsfyrirkomulagið og sá háttur sem nú er hafður á við boðun endurskoðunar skattkerfisins endurspegli þá aðferðafræði sem hafi ráðið för hjá Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum undanfarin ár, þar sem tæknileg útfærsla kerfisins sé í forgrunni fremur en hugmyndir um samfélagsleg áhrif skattheimtunnar og skiptingu verðmæta. „Mér hafa þótt vissir stjórnmálamenn, einkum Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn, leggja mjög ríka áherslu á tæknilega útfærslu skattkerfisins en ekki endilega hafa sterka pólitíska stefnu, eða orðaða stefnu, um áhrif þess á kjör landsmanna,“ segir hann.
Gylfi bendir á að launþegahreyfingin, ekki síst Starfsgreinasambandið, hafi lagt áherslu á að ná fram hækkun lægstu launa í krónutölu. „En af því að í tækinlegri útfærslu skattkerfisins er ákveðið að láta persónuafslátt fylgja verðlagi en ekki kaupgjaldi, þá hefur þetta leitt til kerfisbundinnar hækkunar á skattbyrði lágtekjufólks. Krónutölurnar fylgja ekki kaupgjaldi, og þetta er auðvitað stórpólitísk ákvörðun, að láta skattbyðri lágtekjufólks hækka við það eitt að verkalýðshreyfingin semji um hærra kaup. Þetta gerist vegna tæknilegrar útfærslu kerfisins. Það var aldrei lagt fram neitt frumvarp á Alþingi um að hækka skattbyrði lágtekjufólks. Þetta gerðist bara sjálfkrafa með athafnaleysi.“
„Þetta háttaleg er ekki
samstarf, þetta er ekki samráð“
Gylfi segir ýmis dæmi um það undanfarna áratugi að stjórnmálamenn hafi átt raunverulegt samráð við launþegahreyfinguna og hrint af stað aðgerðum í anda þess sem vinnandi fólk kallaði eftir. „En núna, Kjararáð og þessar nefndir sem nú eru skipaðar, þarna er ekkert verið að bjóða til neins samtals. Hér er bara verið að segja: við ætlum að breyta skattkerfinu og þið megið svo sem alveg lýsa ykkar skoðunum. Þetta er mjög teknókratískt, skilaboðin eru: Þetta er mitt áhrifasvæði, ykkur kemur þetta ekki við, þessu ætlum við að ráða. Bjarni er upptekinn af því. Gott og vel, hann gerir það og við semjum svo við atvinnurekendur, en það vantar skilning á því að ef hann vill að launamenn sveigi sínar kröfur til þá verður hann að vera tilbúinn að sveigja sínar líka. Aðeins þannig ná menn sátt. Hér er ekki tekið neitt tillit til þess. Þetta háttaleg er ekki samstarf, þetta er ekki samráð, þetta er bara tilkynning.“
Gylfi segir að nefndirnar séu skipaðar góðu fólki. „Þetta er mjög mætt fólk, en þarna virðist hins vegar ríkisstjórnin ekki vera að leggja út í samstarf heldur vera að framfylgja sinni eigin stefnu. Við komum auðvitað okkar skoðunum á framfæri við þessar nefndir, hvernig við teljum skattkerfið eiga að vera. En mér er fyrirmunað að skilja hvernig þau ætla að tengja þetta kjarasamningum eða láta þetta liðka fyrir þeim.“
Athugasemdir